Undanfarin ár hefur verið áberandi umræða um stöðu kvenna í ýmsum geirum atvinnu- og menningarlífs. Oftar en ekki er staðan sú að konur sem vilja hasla sér völl í karllægum geira glíma við ýmsar áskoranir sem hafa áhrif á hvernig þær nálgast sín verkefni.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Auði Viðarsdóttur þjóðfræðing og tónlistarkonu. Í vorhefti Skírni birtist grein um rannsókn hennar á konum í raftónlist og þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir. Auður fjallar um efnið meðal annars út frá feminísku sjónarhorni og greinir upplifanir kvenna af því hvað þær þurfi að gera til að á þær sé hlustað og mark tekið á þeim eins og strákunum í tónlistarsenunni. Þá fjallar hún um tengsl kvenna við græjurnar sínar, mikilvægi sjáanlegra fyrirmynda og segir frá tónlistarsamtökunum og rokkbúðunum Stelpur rokka sem Auður hefur unnið með í 10 ár.
Auður er einnig nýbyrjuð í doktorsnámi og segir stuttlega frá rannsóknarefni sínu. Um er að ræða þverfaglega rannsókn sem skoðar leiðir að gera mataræði fólks bæði vistvænna fyrir umhverfið og heilsusamlegra. Í rannsókninni mun Auður taka viðtöl við fólk sem hagar mataræði sínu með þeim hætti að það sé bæði vistvænt sem og heilsusamlegt.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.
Mynd: Þórdís Reynis