Dagrún Ósk Jónsdóttir mun í byrjun júní verja doktorsritgerð sína í þjóðfræði sem nefnist Í viðjum hefðarinnar: Konur og kvenleiki í íslenskum þjóðsögum. Af því tilefni er þátturinn með óhefðbundnu sniði. Dagrún Ósk sest í sæti viðmælenda og Vilhelmína ræðir við hana um rannsóknina.
Í þættinum segir Dagrún frá rannsókninni en hún vann með og greindi sagnir í íslenskum þjóðsagnasöfnum frá 19. og 20. öld. Dagrún beinir sjónum sínum sérstaklega að óhlýðni, uppreisn og andófi kvenna og ofbeldi gagnvart konum og viðhorfum til þess. Nánar tiltekið skoðar hún sagnir um konur sem hafa eiginleika og sinna störfum sem voru talin karllæg, sagnir sem segja frá kynbundnu ofbeldi, sagnir af konum sem hafna móðurhlutverkinu og sagnir af yfirnáttúrulegum konum, það er að segja huldukonum og skessum.
Þjóðsögur bera vitni um þann hugmyndaheim og það samfélag sem þær tilheyra. Sagnirnar styðja því yfirleitt við ríkjandi hugmyndir um hvað þóttu vera hefðbundin hlutverk og æskileg hegðun kvenna. Í þættinum ræðir Dagrún þessar hugmyndir nánar og gefur dæmi um hvernig þessi gamalgrónu viðhorf birtast í sögnunum.
Rannsókn Dagrúnar sýnir svo ekki verður um villst að mikið af þeim hugmyndum sem sjá má í þjóðsögum eru enn til staðar í dag. Þess vegna kallast rannsókn Dagrúnar á við samtímann þar sem staða kvenna og úrelt viðhorf til kynhlutverka, kvenleika og ofbeldis gagnvart konum hafa verið mjög til umræðu. Rannsóknin varpar nýju ljósi á hversu rótgrónar hugmyndir um hlutskipti kvenna eru í raun og veru og er hún því mikilvægt innlegg í jafnréttisumræðu samtímans.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir.