Gísli Sigurðsson starfar sem rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hefur um árabil sinnt farsælum rannsóknum á íslenskum fræðum og þjóðfræði. Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Gísla um rannsóknir hans á munnlegri hefð og minnisfræðum.
Gísli segir frá námsárum sínum og dvöl á Íslendingaslóðum í Kanada. Þar tók hann meðal annars viðtöl við Vestur-Íslendinga og hljóðritaði frásagnir þeirra. Þá segir Gísli frá rannsóknum sínum á fornbókmenntum, hvernig frásagnirnar og kvæði varðveittust í munnlegri geymd í lengri tíma áður en þau voruð rituð á skinn á 13. öld. Björn Jónsson reyndist svo áhrifavaldur í rannsóknum Gísla og vakti áhuga hans á himnafestingunni og heimsmynd fyrri tíma sem meðal annars birtist í Eddukvæðum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.