Þáttur um kúl loftslagsmál, skammstafað ÞUKL, hefur göngu sína (á ný) í Hlaðvarpi Kjarnans. Á þessum vettvangi er sjónum beint að loftslagsmálum og reynt að útskýra þau og umfang þeirra með sem bestum hætti. Við ríðum á vaðið með viðtali við umhverfisráðherra. Viðtalið má lesa í heild sinni hér.
Björt Ólafsdóttir tók við sem umhverfis- og auðlindaráðherra í nýrri ríkisstjórn hinn 11. janúar síðastliðinn. Hún hefur undanfarnar vikur staðið í ströngu við að koma sér fyrir í nýju embætti eftir að hafa verið þingmaður Reykvíkinga í stjórnarandstöðu í eitt kjörtímabil.
Einungis mánuði eftir að hún tók við lyklum að skrifstofu ráðherra í umhverfisráðuneytinu í Skuggasundi, var henni kynnt skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) sem Sigrún Magnúsdóttir, forveri hennar í embætti umhverfisráðherra, óskaði eftir að yrði gerð og Brynhildur Davíðsdóttir prófessor ritstýrði.
Og niðurstöðurnar eru ekki nógu góðar.