Bryndís Schram
1989 – níundi nóvember, fall Berlínarmúrsins.
Það er fjórðungur úr öld síðan. Samt finnst mér einhvern veginn, eins og þetta hafi gerst í gær. Ég kom þarna með manni mínum skömmu síðar. Hann átti fundi með hópi fólks, sem hafði staðið framarlega í andstöðuliðinu í gamla alþýðulýðveldinu. Við heyrðum þýska krata úr gömlu Vestur-Berlín spá í framtíðina út frá orðum Willys Brandt: „Nú grær það saman, sem sprottið er af sömu rót“.
Núna - 25 árum síðar – eru engu líkara en Þjóðverjar séu dottnir í það, komnir á sögulegt fyllirí. Og þeir eru ekki einir um það. Þetta voru mikil tímamót fyrir Tékka og Slóvaka, Pólverja, Ungverja og aðra Austur-Evrópumenn. Á tímabili leit út fyrir, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistar, Lettar og Litháar, myndu lokast inni í Sovétríkjunum. Þeir sluppu ekki út fyrr en á seinustu stundu – í ágúst 1991.
Og svo hrundu Sovétríkin sjálf til grunna um áramótin 1991-92. Við þau áramót, samkvæmt tímatali rétttrúnaðarkirkjunnar – var rauði fáninn með hamri og sigð dreginn niður við Kremlarmúra í hinsta sinn. Seinni heimstyrjöldinni var loksins lokið. Sumir forheimskuðu sig á að halda, að þetta væru endalok sögunnar (munið Fukuyama?). Við sem upplifðum þessa atburði, vonuðum að þetta yrði upphaf nýrri og betri tíma.
Af þessu tilefni hafa spunnist umræður vítt og breitt um heiminn um ártöl, sem hafa skipt sköpum. Í spænskri sögu gnæfir ártalið 1492 upp yfir öll önnur. Og hvað gerðist þá? Þá tókst til dæmis spænska landeigendaaðlinum loksins að hrekja seinasta Márann af valdastóli í Granada. Þar með var endir bundinn á yfirráð Múhameðstrúarmanna á meginlandi Evrópu, sem staðið hafði í meira en sjö hundruð ár. (Að vísu áttu þeir síðar eftir að herja á Evrópu upp Balkanskagann, næstum því að landamærum Vínar, en það er önnur saga).
Þeir sem horfa út fyrir gömlu Evrópu um veröld víða, munu væntanlega segja, að árið 1492 væri greipt gullnu letri í veraldarsöguna af allt öðrum ástæðum. Það ár sigldi ítalskur sæfari úr höfn í Andalúsíu í leit að Indlandi, en fann í staðinn meginland Ameríku. Það er óumdeilt, að fundur hins nýja meginlands og landnám Evrópumanna þar – Englendinga og Norður-Evrópumanna í Norður-Ameríku, en Spánverja í Suður og Míð-Ameríku – breyttu mannkynssögunni – til góðs eða ills. Við þetta hófst straumur útflytjenda frá Evrópu til Ameríku. Við það varð þessi nýja heimsálfa framlenging af sögu og menningu gömlu Evrópu. Það hefur fortakslaust breytt miklu um framvindu sögunnar, og engan veginn enn séð fyrir endann á því.
Í þessari umræðu allri hafa nú heyrst raddir, þar sem kveður við annan tón. Þær eru sammála því, að árið 1492 hafi vissulega reynst vera tímamótaár í mannkynssögunni. En þegar fram líða stundir, muni menn hallast að því, að ástæðan sé önnur og óvænt. Hver þá? Jú – sjáið þið nú til. Árið 1492 bar það nefnilega til tíðinda, að málvísindamaður einn, Antonio De Nebrija, færði hinum ungu konungshjónum, Isabellu og Ferdinand, mikið ritverk að gjöf – splunkunýja málfræði fyrir tungumál þeirra hásléttumanna í Kastilíu.
Kastilíano var á þessum tíma eitt af mörgum tungumálum, sem töluð voru á Íberíuskaganum – og alls ekki það sem flestir höfðu að móðurmáli. En þetta var tungumálið, sem landræningjarnir í Suður og Mið-Ameríku töluðu og fluttu með sér. Og Ísabella lýsti því yfir með pompi og prakt, að „þetta skyldi hér eftir verða ríkismál hins nýja stórveldis“. Og gleymum ekki því, að þar með varð kastilíano tungumál kaþólsku kirkjunnar.
Á meginlandi Ameríku voru fyrir þjóðflokkar, sem töluðu sín eigin tungumál og voru mun fjölmennari en sveitamenn spænsku hásléttunnar. Saga landnáms Spánverja í Suður og Mið-Ameríku er blóði drifin. Það er saga miskunnarlauss ofbeldis, kúgunar og arðráns, auk niðurlægingar og fjöldamorða á hinum innfæddu. Spánverjar fluttu með sér sjúkdóma, sem urðu að faröldrum, og innfæddir voru varnarlausir fyrir. Þeir hinna innfæddu, sem ekki féllu fyrir vopnum, fórust í hrönnum í drepsóttum, sem Spánverjarnir fluttu með sér.
En tungumálið – kastilíano hásléttumannanna – lifði af styrjaldir, hungursneiðir og drepsóttir. Kaþólska kirkjan boðaði lýðnum sæluvist á himnum – á spænsku. Jesúítarnir kenndu trúboðum sínum á spænsku. Landeigendurnir neyddu þræla sína – að viðlögðum dauða eða píslum – til að læra mál herraþjóðarinnar.
Að því kom, að þjóðir Suður-Ameríku risu upp gegn spænska nýlenduveldinu. Umboðsmenn kúgunarvaldsins frá Madrid voru hver á fætur öðrum reknir heim – frá Kolumbíu, Venezuela, Argentínu, Chile, Perú, Bolivíu og Equador – líka frá löndum Mið-Ameríku og frá eyríkjum Karíbahafsins, seinast frá Kúbu.
Spánn hvarf aftur inn í sjálfan sig og varð að lokum að bráð eigin fasisma, Á þessu hnignunarskeiði misstu Spánverjar af endurreisninni, upplýsingaöldinni og iðnbyltingunni. Þeir urðu að vanþróuðu útkjálkahéraði á jaðri Evrópu.
En kastilíano – spænsk tunga – hefur hins vegar farið sigurför um heiminn. Á Spáni búa nú rúmlega 40 milljónir manna. Af þeim fjölda eiga margir annað tungumál að móðurmáli, svo sem katalónsku og baskamál. Þar að auki talar fólk í Galicíu og Andalúsíu mállýskur, sem það vefst fyrir Kastilíumönnum á skilja.
En í heiminum öllum eru þegar tæplega 400 miljónir manna, sem eiga spænsku að móðurmáli. Það er ekki bara öll Suður og Mið-Ameríka (fyrir utan Brasilíu, sem höktir á portúgölsku), sem talar spænsku. Tugir milljóna í Bandaríkjunum eiga nú spænsku að móðurmáli. Spænska er að verða meirihlutamál í ýmsum fylkjum Suðurríkjanna. Sumir gera því skóna, að þannig muni Mexíkó smám saman endurheimta þau víðfeðmu landsvæði, sem Bandaríkjaher rændi af þeim á nitjándu öldinni. Nú orðið eiga fleiri spænsku að móðurmáli en ensku í heiminum.
Það er bara mandarínskan, mál Han-þjóðflokksins, sem skýtur hinum spænskumælandi ref fyrir rass. Þar á móti kemur, að hinum spænskumælandi fjölgar mun örar. Að vísu skal viðurkennt, að enskan hefur vinninginn, sem alþjóðamál okkar tíma í viðskiptum og vísindum. En jafnvel það kann að breytast, þegar fram líða stundir, og Miðríkið – Kína – hefur aftur öðlast sinn forna sess sem miðja heimsins.
Við getum verið sammála um það, að árið 1492 skipti sköpum í sögu heimsins, en kannski var það, þegar allt kemur til alls, málfæðikverið hans Antonios Nebrija, sem réði úrslitum. Heimsveldi rísa og hníga. Tungumálin sameina þjóðirnar – en án málfræðinnar lifa engin tungumál.
Viva gramatica!