Samtök atvinnulífsins benda á það á vef sínum í dag, að íslenska ríkið verði með um 70 prósent af bankakerfinu í fanginu um áramótin, þegar eignarhluturinn í Íslandsbanka kemur til ríkisins, auk þess sem ríkið mun eiga áfram 13 prósent hlut í Arion banka.
Þegar Íslandsbanki kemst í eigu ríkissjóðs um áramótin verða tveir af þremur viðskiptabönkunum í meirihlutaeigu ríkisins. Jafngildir það að ríkið ráði 70% af þessum markaði auk þess að eiga 13% hlut í Arion banka. „Slík ríkisumsvif í fjármálakerfinu eru óþekkt á Vesturlöndum. Hlutfallið nú er sambærilegt og í Rússlandi en hærra en í Venesúela. Um áramótin komumst við í hóp með Hvíta-Rússlandi og Indlandi þar sem eignarhlutur hins opinbera í fjármálakerfinu er hlutfallslega hæstur skv. Alþjóðabankanum. Áhætta ríkisins af þessum rekstri verður mjög mikil og brýnt að hraða sölu á hlut ríkisins í bönkunum,“ segir á vef Samtaka atvinnulífsins.
Þetta er athyglisverð staða, svo mikið er víst. En það er líka merkilegt að íslenskur almenningur á meira og minna allt fjármagnið sem bankakerfið íslenska byggir á í augnablikinu. Bankarnir reiða sig á fjármagn almennings, enda hefur hrunið frá 2008 nánast lokað lánamörkuðum erlendis, nema þá á slæmum kjörum í alþjóðlegum samanburði.
Almenningur er því stærsti kröfuhafi bankanna eins og þetta er núna. Ríkið ber líka ábyrgð á rekstri bankanna, ef þeir verða aftur það illa reknir að þeir komast í þrot. Ennþá er unnið eftir því að seðlabankar séu bankar bankanna og þannig er ríkisábyrgð á bönkum, alveg óháð því hvort eignarhaldið er einkaréttarlegt eða ekki.
En ef góðir og traustir erlendir bankar, til dæmis frá Norðurlöndunum, eru tilbúnir að koma hingað og reka hér bankaþjónustu fyrir fólk og fyrirtæki, þá væri það svo sannarlega fagnaðarefni. Vonum það besta...