Nýjasta tískuorðið í íslenskri pólitík er orðið samfélagsbanki. Hugtakið komst fyrst í þjóðfélagsumræðuna í vor þegar flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti tillögu um að Landsbanki Íslands yrði áfram í ríkiseigu og myndi starfa sem samfélagsbanki sem hefði ekki það markmið að hámarka arðsemi. Í viðtali við RÚV vegna þessa sagði Frosti Sigurjónsson, sem lagði tillöguna fram, að tilgangur samfélagsbanka yrði að reyna „að efla samkeppni á bankamarkaði með því að bjóða góða þjónustu og á góðu verði“.
Áður hafði stjórnmálaaflið Dögun sett fram sambærilega hugmynd og í október samþykkti Landsfundur Vinstri grænna álytkun um að "breyta Landsbanka Íslands í samfélagsbanka sem hefur þjónustu við almenning að leiðarljósi umfram kröfur um arðsemi".
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi samfélagsbankahugmyndina í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Þar segir hann hafa „orðið þess var að menn virðast leggja ólíkan skilning í hvað sé átt við með samfélagsbanka[...]Nú þegar fjármálakerfið losnar úr viðjum slitabúa og hafta er eðlilegt að eigendastefna ríkisins gagnvart bönkunum taki mið af því mikilvæga hlutverki sem bankar gegna í samfélaginu þannig að bankar í eigu ríkisins leggi sitt af mörkum við að bæta þjónustu við viðskiptavini og bjóða þeim samkeppnishæf kjör“.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs, vinnur hins vegar ekki eftir þessari aðferðarfræði. Hann ætlar sér að selja stóran hlut í Landsbankanum og allt hlutafé í Íslandsbanka. Nýafstaðinn landsfundur flokks hans tók rækilega undir þá fyrirætlun í ályktun.
Í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag bendir Bjarni á að á á Íslandi hafi lengi verið starfandi samfélagsbanki. Hann heiti Íbúðalánasjóður.„Ég held að þeir sem aðhyllast hugmyndafræði um samfélagsbanka, sem er ekkert annað en ríkisbanki, megi hafa það í huga að hér hefur verið rekinn íbúðalánabanki sem hefur bara veitt öruggustu tegund af lánum, þ.e.a.s. fasteignalán með 1. veðrétti í fasteign. Engu að síður hefur ríkið þurft að aðstoða þennan banka með 50 milljörðum króna á undanförnum árum og Íbúðalánasjóður væri ekki starfandi ef ekki væri fyrir yfirlýsingar um að ríkið standi að baki efnahag hans. Helstu rökin fyrir Íbúðalánasjóði voru þau að þetta fyrirkomulag myndi tryggja bestu kjör. En vandi hans undanfarin ár er umfram annað það að viðskiptavinirnir hafa viljað gera upp lánin til að komast annað í viðskipti. Það hefur verið gríðarlega kostnaðarsamt fyrir íslenska skattgreiðendur að byggja upp þetta viðskiptamódel og ég hef ekki áhuga á því að útfæra það yfir á aðra banka“.