Allir fjölmiðlar á Íslandi fjölluðu um óveðrið mikla sem geisaði í gær, eðli málsins samkvæmt. Í bakherberginu tóku menn hins vegar eftir því að fréttastofa 365 var með mjög umfangsmikla umfjöllun. Jafnvel óvenjulega umfangsmikla, þótt fréttum af þessu tagi sé iðulega vel sinnt þar. Ekki aðeins voru sagðar tugir frétta á Vísi yfir daginn, fram á nótt og aftur í dag. Heldur voru að minnsta kosti tveir aukafréttatímar í sjónvarpinu áður en veðrið skall með fullum þunga á og dagskráin á Bylgjunni var að hluta til lögð undir það sem 365 kallaði óveðursvaktina. Þá stóðu fjórir sjónvarpsfréttamenn þessa óveðursvakt, fleiri en oft eru á allri vaktinni hjá Stöð 2 á venjulegum degi.
Stjórnendur og aðrir innan herbúða 365 hafa verið duglegir að gagnrýna RÚV í langan tíma, nú síðast í kjölfar skýrslu um stöðu RÚV. Í skýrslunni var gerður samanburður á rekstri RÚV og 365. Í kjölfar skýrslunnar sagði ritstjóri 365 m.a. að helmingi fleiri fréttamenn væru að störfum hjá RÚV en 365 og stöðugildi í samanburðarhæfum rekstri væru ríflega tvöfalt fleiri hjá RÚV. „Kannski er samanburður ekki sanngjarn, en varla skýrir „almannaþjónustuhlutverkið“ allan muninn,“ skrifaði Kristín Þorsteinsdóttir, og hafði almannaþjónustuhlutverk RÚV í gæsalöppum. Iðulega heyrist sá málflutningur, og ekki bara frá 365, að einkareknir fjölmiðlar geti vel sinnt því hlutverki sem Ríkisútvarpinu er ætlað, og meðal annars almannaþjónustuhlutverkinu sem RÚV er ætlað að sinna samkvæmt lögum. Þetta hefur verið notað til að rökstyðja róttækar breytingar og/eða einkavæðingu á Ríkisútvarpinu.
Í ljósi þessa hefur því verið velt upp í bakherberginu hvort umfangsmikil umfjöllun 365 í gær hafi verið ákveðin með þetta á bak við eyrað, og hafi verið liður í því að reyna að sýna fram á að það sem að RÚV geri geti aðrir gert líka?