Nú liggur fyrir að útvarpsgjaldið verður ekki óbreytt í 17.800 krónum heldur lækkar það í 16.400. Það þýðir um 500 milljóna króna tekjuskerðing fyrir RÚV, af því er fram hefur komið hjá stjórnendum RÚV. Á móti kemur síðan 175 milljóna króna sérstakt framlag sem ætlað fyrir innlenda kvikmyndaframleiðslu.
Ljóst er að frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssonar, nær ekki fram að ganga og tókst honum því ekki ætlunarverk sitt. Þegar slíkt gerist með frumvarp hjá ráðherra er það niðurlægjandi fyrir hann, og mikið áfall fyrir pólitíska stöðu, þar sem það opinberast að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn styður ekki mál ráðherrans. Fróðlegt verður að sjá hvernig það mun gang hjá Illuga, að ná vopnum sínum aftur. Það er ekki augljóst að það takist.
Viðbrögðin við þessari stöðu sem upp er komin hjá RÚV eru um margt kostuleg. Magnús Geir Þórðarsonar útvarpsstjóri lýsir niðurstöðunni sem miklum vonbrigðum, og að nú taki við vinna við að forgangsraða verkefnum og sjá hvað muni lifa og hvað ekki, í starfsemi RÚV. Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður, er sáttur við niðurstöðuna og segir hana „ágæta lausn“. Illugi hafði raunar látið svipuð orð falla, en þau eru því marki brennd að vilji hans var kominn opinberlega fram áður, og niðurstaðan er augljóslega þvert á hana.
Nú verður að koma í ljós hvernig RÚV gengur að feta sig áfram í nýjum rekstrarveruleika.