Rafnar ehf., sem hefur síðasta áratug unnið að þróun, hönnun og smíði á byltingar-kenndri tegund báta, hefur tekið höndum saman við Vikal International um smíði á hrað- og léttabátum fyrir lúxussnekkjur á alþjóðamarkaði. Frá þessu var greint í dag, í fréttatilkynningu.
Rafnar ehf. er hugarfóstur Össurar Kristinssonar, stofnanda Össurar hf., en fyrirtækið hefur síðustu tíu ár unnið að þróun, hönnun og smíði á byltingarkenndri tegund báta. Um þrjátíu manns starfa hjá fyrirtækinu í tæplega 6.000 fermetra húsnæði í Kópavogi.
Vikal International var stofnað í Ástralíu árið 1982 af bátasmiðnum Gunnari Víkingi og sérhæfir sig í smíði og sölu á hrað- og léttabáta fyrir lúxussnekkjur á alþjóðamarkaði.
Þetta er enn eitt dæmið um hvað hugvitið getur gefið samfélagi okkar mikinn virðisauka, en oft er það svo að við fjölmiðlafólkið, erum ekki að fylgjast nægilega vel með því mikla og magnaða starfi í hugvitsiðnaði ýmis konar sem í gangi er á hverjum tíma.
Eitt af því sem Kjarninn hefur reynt að gera frá stofnun er að fjalla um lítil og meðalstór fyrirtæki, ekki síst þau sem eru í frumkvöðlastarfsemi og uppbyggingarstarfi. Hjá þeim vinnur um 70 prósent íslensks vinnumarkaðar.
Það skiptir máli að um þessa starfsemi sé fjallað meira, og það hvetur okkur til dáða hversu mikinn áhuga fólk hefur á starfsemi þessara fyrirtækja.
Rafnar, sem telja má til fyrirtækja af þessari stærðargráðu (Þó mörg fyrirtæki vilji láta skilgreina sig sem stór!), mun nú geta boðið viðskiptavinum sínum að smíða hrað- og léttbáta fyrir lúxussnekkjur, en með samningnum við Vikal nær Rafnar að fá aðgang að góðum viðskiptavinum, þar á meðal 300 til 400 auðugustu fjölskyldum heims. Þetta skiptir miklu máli, segir Björn Jónsson framkvæmastjóri Rafnar.
Rafnar ehf. afhenti í sumar Landhelgisgæslunni nýjan strandgæslubát, en hann gerir Landhelgisgæslunni kleift að bregðast við aðstoðarbeiðnum á grunnslóð með skjótari hætti. Í haust afhenti Rafnar svo Hjálparsveit Skáta í Kópavogi nýjan leitar- og björgunarbát sem gjörbreytir aðstæðum til leitar og björgunar. Þá stendur yfir hjá Rafnar smíði á leitar- og björgunarbáti fyrir Björgunarsveitina Geisla á Fáskrúðsfirði sem verður afhentur sveitinni á fyrri hluta ársins 2016, að því er segir í tilkynningu.
„Vikal International hefur náð góðri fótfestu á þeim markaði sem sérhæfir sig í hrað- og léttabátum fyrir lúxussnekkjur á alþjóðamarkaði og það er okkur mikil ánægja að geta verið fyrstir til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á slíka báta með þessum byltingarkenndum skrokki ,“ segir Gunnar Víkingur, framkvæmdastjóri Vikal International, í tilkynningunni.
Um þetta samstarf, og þessa merkilegu útrás, er það eitt að segja, að hún er ánægjulegur vottur um framtakssemina hjá frumkvöðlum í íslensku atvinnulífi. Þar er ekki kappsmál að verða strax stór, heldur fyrst og síðast að vaxa með góðri vöru og þjónustu. Vel gert!