Greint var frá því í ViðskiptaMogganum í morgun að Björgólfur Thor og viðskiptafélagar hans hjá Novator séu að skella sér í samheitalyfjabransann á ný. Þeir hafa þegar stofnað fyrirtækið Xantis Pharma, sem er með höfuðstöðvar í Zug í Sviss. Það er sama borg og hýsti höfuðstöðvar Actavis, samheitalyfjafyrirtækisins sem Björgólfur Thor réð yfir forðum daga, hér áður fyrr. Actavis hefur síðan gengið í gegnum fjölmargar sameiningar og heitir nú Allergan. Um mitt ár í fyrra var hlutur Novator í Allergan kominn undir eitt prósent, en gengi bréfa í félaginu hefur fimmfaldast á tæpum fjórum árum. Samkvæmt fréttum er stutt í að aðkoma Novator að Allergan verði að fullu lokið.
Endurkoma Björgólfs Thors og Novators í samheitalyfjabransann er athyglisverð fyrir margra sakir, meðal annars vegna áralangrar pissukeppni milli hans og Róberts Wessmann, fyrrum forstjóra Actavis. Frá því Róbert, og hans nánasti samstarfsmaður Árni Harðarson, hættu störfum hjá Actavis hefur nefnilega andað verulega köldu milli þeirra og Björgólfs Thors.
Björgólfur Thor hefur ætið haldið því fram að hann hafi rekið Róbert fyrir að setja félagið á hliðina en Róbert hefur hafnað því. Björgólfur Thor hefur meðal annars stefnt bæði Róberti og Árna til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt og báðir aðilar hafa atyrt hinn á opinberum vettvangi við hvert tækifæri á undanförnum árum. Deilurnar náðu síðan nýjum hæðum í fyrrahaust þegar í ljós kom að um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki hópmálsókn fyrrum hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi Thor eru í eigu félags sem Árni Harðarson á. Björgólfur Thor sagði á heimasíðu sinni að „fingraför þessarra kumpána [Róberts og Árna] hafa verið á málinu frá upphafi“.
Róbert hefur á undanförnum árum stýrt uppbyggingu samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, en Árni er lögmaður þess og situr í stjórn. Fyrirtækið er meðal annars með skrifstofur í Mið- og Austur-Evrópu, sem er það markaðssvæði sem Xantis Pharma ætlar að herja á. Róbert og Árni verða því brátt aftur í beinni samkeppni við Björgólf Thor á alþjóðlega samheitamarkaðnum. Áhugavert verður að sjá hvort sama heiftin muni vera í þeim slag og öðrum sem þeir hafa tekið á undanförnum árum.