Á undanförnum árum hafa konur komist í sífellt fleiri áhrifastöður í íslensku atvinnulífi, sem að öllu leyti er jákvæð og góð þróun. Lög sem miða að því að jafna hlut kvenna og karla í stjórnum fyrirtækja hafa reynst vel, og varla að heyra eina einustu efasemdarrödd um að skynsamlegt hafi verið að ýta undir aukna þátttöku kvenna í atvinnulífinu með lögunum.
En lögin tryggja aldrei jafna virðingu fyrir hæfileikum kvenna, og því miður er það svo, ekki síst á alþjóðavettvangi, að þörf er á miklu átaki og hugfarsbreytingu svo að konur komist til forystu. Miklir sigrar hafa þó unnist á undanförnum árum, og má þá nefna dæmi þegar dr. Janet Yellen tók við stöðu bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna í febrúar 2014, fyrst kvenna, en það embætti er meðal allra þýðingarmestu embættum veraldar. Þetta gefur mikilvæg skilaboð og ýtir undir þá nauðsynlegu hugarfarsbreytingu sem þarf að verða víða, til að stuðla að jafnrétti kynjanna.
Dæmi um land sem glímir við mikinn vanda vegna þess að ekki er borin nægilega mikil virðing fyrir hæfileikum kvenna er Japan. Þar eru stjórnendur í atvinnulífinu nánast eingöngu karlar á sextugs og sjötugsaldri, en aðeins 7,5 prósent stjórnenda í atvinnulífinu í Japan eru konur. Stjórnvöld hafa ýtt úr vör áætlun sem miðar að því að virkja hæfileika kvenna, til að ýta undir aukinn hagvöxt, og hækka hlutfall kvennstjórnenda í 30 prósent fyrir árið 2020. Í ljósi veruleikans verður það að teljast háleitt markmið.
Hér á landi er blessunarlega annar veruleiki, og margir merkir sigrar unnist á undanförnum árum, en mikilvægt er þó að staldra við og skoða hvar megi gera betur. Í hinum íslenska fjármálaheimi hefur í gegnum tíðina verið mikil karlæg slagsíða, en úttekt Kjarnans sýndi að níu af hverjum tíu æðstu stjórnendum væru karlar. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er þar undantekning, sem eina konan sem er bankastjóri hér á landi, en hún var í gær heiðruð af Félagi kvenna í atvinnulífi (FKA) fyrir störf sín, ekki síst á undanförnum árum, á umbrotatímum í íslensku efnahagslífi. Hún fékk FKA viðurkenninguna 2016.
Tímamót eru síðan framundan í íslensku atvinnulífi, á aðalfundi Viðskiptaráðs, sem fram fer 11. febrúar næstkomandi, en þá mun kona í fyrsta skipti taka við formennsku í ráðinu. Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já, mun þá taka við sem formaður af Hreggviði Jónssyni, sem hefur verið formaður ráðsins undanfarin fjögur ár.
Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir íslenskt atvinnulíf, vegna þess að það skiptir máli - þó það eigi að vera sjálfsagt - að sjá það í verki að konur séu metnar að verðleikum og þeim treyst fyrir mikilvægum störfum. Það hefur sýnt sig að þær eru traustins verðar.