Ef marka má nýjustu skoðanakönnun MMR hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins aldrei verið lægra. Flokkurinn mælist örlítið hærri í Gallup-könnunum, en svo lágar tölur eru engu að síður sjaldséðar hjá flokknum.
Á þeim árum sem Bjarni Benediktsson hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hann þurft að standa af sér ýmsar tilraunir til þess að koma honum frá völdum. Þessar tilraunir hafa iðulega verið tengdar við fylgistap flokksins. Þegar Hanna Birna bauð sig fram gegn honum árið 2011 var það tengt lélegu fylgi við flokkinn. Í ræðu sinni á landsfundinum þuldi hún upp fylgisþróun flokksins, sem var þá búið að vera 36% í 15 mánuði. „Þetta er sem sagt siglingin sem flokkurinn hefur verið á. 15 mánuðum frá síðasta landsfundi erum við á nákvæmlega sama stað og í ágúst 2010. Höfum það jafnframt í huga að skoðanakannanir sýna okkur yfirleitt með mun meira fylgi - en það sem við fáum út úr kosningum,“ sagði hún þá.
Umræðan um fylgi flokksins hélt áfram eftir þann landsfund, en Hanna Birna ákvað að bjóða sig ekki fram gegn Bjarna á næsta landsfundi. Engu að síður fór af stað mikil hreyfing skömmu fyrir kosningar þar sem tilgangurinn var að koma Bjarna frá og Hönnu Birnu að. Röksemdafærslan var sú sama, slakt gengi í könnunum og sömuleiðis kannanir sem sýndu að flokkurinn yrði í betri málum með hana við stjórnvölinn.
Ekkert svona var uppi á teningnum fyrir síðasta landsfund og jafnvel þótt fylgið haldi áfram að lækka er umræðan um stöðu Bjarna nákvæmlega engin. Allavega ekki á yfirborðinu.
Í bakherberginu er það rætt að sjálfstæðismenn séu væntanlega ekki búnir að sætta sig við þetta fylgi, alveg sama hvort það eru 19,5 prósentin hjá MMR eða 25 prósentin hjá Gallup. Líklegri skýring fyrir því að engin umræða sé um stöðu Bjarna sé sú að það er einfaldlega enginn sem hefur hag af því lengur, enginn með nægilega sterka möguleika á að velgja undir honum. Að minnsta kosti getur Hanna Birna það ekki lengur, og ekki heldur hinn maðurinn sem lengi var talinn leiðtogaefni í flokknum, Illugi Gunnarsson.
Næsti landsfundur verður væntanlega eftir rétt rúmt ár, og því má fara að leggja við hlustir á næstunni eftir því hvort og þá hvaða sjálfstæðismenn hefji þessa umræðu.