Hagstofan gaf á dögunum út sitt
árlega rit um afkomu sjávarútvegsins, hag veiða og vinnslu, og nú fyrir árið
2014. Þar staðfestist að góðærið hélt áfram í íslenskum sjávarútvegi, þó hreinn hagnaður drægist lítillega
saman milli ára, þ.e. úr 18,2% árið 2013 í 15,0% 2014. Ein skýring er eflaust
léleg loðnuvertíð árið 2014. EBITDA framlegðin eða fjármunamyndunin í
greininni er þó áfram í sögulegum
hæðum og var rétt tæpir 59 milljarðar árið 2014 sem er
þar með enn eitt árið í röð þar sem EBITDA framlegðin er á
bilinu 60 og upp undir 80 milljarðar. Enda sér þessa heldur betur stað
þegar þróun eiginfjár og arðgreiðslna í sjávarútveginum er skoðuð.
Nú er það að sjálfsögðu fagnaðarefni að íslenskur sjávarútvegur standi sterkt. Greinin þurfti svo sannarlega að byggja sig upp að nýju eftir höggið sem efnahagsreikningar fyrirtækjanna fengu á sig með gengishruninu 2008. En þar með gjörbreyttist líka um leið afkoman og í framhaldinu lagðist allt saman, hagstætt gengi fyrir útflutningsgreinar, ágæt aflabrögð og í mörgum tilvikum aukin veiði með tilkomu makríls og svo nú seinni árin með auknum þorskkvóta. Þá hafa verð á mörkuðum í það heila tekið haldist há. Það er frekast nú að horfurnar séu orðnar blendnari svo sem vegna áhrifa af viðskiptabanni Rússa og dauflegum horfum um loðnuvertíð auk þess sem gengið hefur styrkst nokkuð. Á móti kemur ávinningur af stórlækkuðu olíuverði.
Arður eigendanna
En lítum þá aðeins á hvað þetta langvinna og sögulega góðæri sjávarútvegsins hefur fært eigendum fyrirtækjanna. Í árslok 2008 var eigið fé sjávarútvegsins neikvætt um liðlega 80 milljarða króna. Sem sagt, 80 milljarðar í mínus. Árið 2009 var greinin við núllið og síðan byggist eigið féið upp ár af ári þar til það stóð í 185 milljörðum rúmum í árslok 2014. Þetta gerir 265 milljarða króna sveiflu til hins betra í efnahagsreikningi greinarinnar á sjö árum. Þessi bati skýrist að uppistöðu til af góðri afkomu á þessum tíma.
En þar með er ekki einu sinni öll sagan sögð. Þessu til viðbótar hafa eigendur fyrirtækjanna greitt sjálfum sér í arð út úr fyrirtækjunum á áðurnefndu árabili, 2008 til og með 2014, tæpa 50 milljarða króna, nánar tiltekið 49 milljarða samkvæmt nýlegri samantekt Deloitte. Og þá er sveiflan í auknu eigið fé og arðgreiðslum komin í 314 milljarða í plús.
Hagur eigenda íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur sem sagt vænkast um 314 milljarða króna á árabilinu 2008 til 2014. Þrátt fyrir tæplega 50 milljarða króna arðgreiðslur á áðurnefndu tímabili var eiginfjárhlutfallið í greininni í heild komið í 32,3% í árslok 2014 og hefur ekki um langt árabil, ef þá nokkurn tímann, verið hærra.
Að vísu ber svo við að skuldir sjávarútvegsins hækkuðu lítillega á árinu 2014 og þá í fyrsta skipti í mörg ár. Skýrist það að sjálfsögðu af því að fjárfestingar eru komnar á fulla ferð í greininni. Það er vel og ekki vanþörf á að yngja flotann og efla og tæknivæða vinnsluna. Reyndar er athyglisvert að fjárfestingar fóru strax að taka vel við sér á árunum 2011 til 2013 öfugt við það sem ætla hefði mátt af umræðunni þá. En eigum við nokkuð að ræða sérstök veiðigjöld og hvað væri sanngjörn hlutdeild eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar, í auðlindarentunni, umframhagnaðinum, svona í ljósi talnanna hér að ofan og meðan svona vel árar? Nei, þess þarf tæpast, tölurnar standa og ekki þarf að hafa áhyggjur af því heldur að útgerðin geti ekki gert sómasamlega kjarasamninga við sjómenn.