Rúmur mánuður er nú liðinn frá því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki bjóða sig fram til forseta á ný. „Nú er góður tími fyrir þjóðina að ganga með nýjum hætti til ákvörðunar um forseta; sess Íslands og innviðir þjóðlífsins eru traustari en um langan tíma,“ sagði hann meðal annars í ávarpinu sínu.
Þá er rifjað upp í bakherberginu að fyrir fjórum árum síðan var á þessum tíma árs hafin undirskriftasöfnun til þess að hvetja Ólaf Ragnar til að hætta við að hætta sem forseti, eins og hann hafði líka tilkynnt í nýársávarpinu það árið að hann hygðist gera. Nokkrum vikum seinna, í lok febrúar, voru undirskriftirnar afhentar forsetanum. Forsetinn lofaði þá að „íhuga vilja fólksins“.
Hann sagði líka þá að hann hefði búist við því að fram á sjónarsviðið kæmu öflugir frambjóðendur sem gætu axlað þá ábyrgð að gegna embætti forseta Íslands. „Ég hefði satt að segja óskað eftir því að bæði ég og þjóðin þyrftum ekki að vera nú í lok febrúar í þessum sporum, heldur hefði á undanförnum vikum eða mánuðum myndast...ríkur vilji að baki tveggja eða þriggja frambjóðanda sem...gætu axlað þá ábyrgð sem felst í embætti forseta.“ Þetta hafði ekki gerst þá, og þetta hefur ekki gerst núna heldur.
Staðan er meira að segja þannig í dag að fáir hafa tilkynnt um framboð til forseta, og sannarlega ekki tveir eða þrír frambjóðendur sem gætu talist líklegir til að hljóta kosningu. Það sem meira er, það fer fram lítil sem engin umræða um kosningarnar sem þó er ljóst að verða haldnar í sumar. Öllum virðist líka ljóst að hvatning til Ólafs Ragnars myndi ekki þýða neitt, jafnvel þótt engir stórir frambjóðendur séu komnir fram á sjónarsviðið.
En hvað er það sem tefur þau sem ganga með forsetadrauma í maganum, sem víst er að allnokkrir einstaklingar gera? Hvenær mun eitthvert þeirra taka af skarið?