Íslenska ríkið rekur nú umsvifameiri fjármálaþjónustu en það hefur sinnt um árabil, eftir að ríkið eignaðist Íslandsbanka að fullu. Ríkið á nú Landsbankann (98) prósent, Íslandsbanka, Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun og LÍN, auk 13 prósent hlutar í Arion banka, sem nú er kominn í söluferli.
Þetta er sérstök staða, og ljóst að út frá
samkeppnislegum sjónarmiðum vakna margar stórar spurningar um stöðu mála.
Kjarninn hefur þegar sent fyrirspurnir á Samkeppniseftirlitið vegna þessar
stöðu, og verður forvitnilegt að fá svör við þeim.
Í ljósi reynslunnar – ekki síst vegna viðskipta Landsbankans með eignarhluti í
Borgun – blasir nú við, að Íslandsbanki þyrfti að hafa frumkvæði að því að
lista upp allar eignir sem bankinn hefur til sölu, bæði stóra eignarhluti og
smærri. Almenningur á allar eignir sem bankir sýslar með, og því verður gagnsæi
að ráða ferðinni við eignaumsýslu. Vonandi mun bankinn taka þetta alvarlega.
Þá verður að teljast nokkuð kómískt að „samkeppnin“ á milli Landsbankanss,
Íslandsbanka og Íbúðalánasjóðs, á að vera nokkur, þegar kemur að veitingu
íbúðalána, en í ljósi þess að sami eigandinn er að baki öllum þessum stofnunum
þá er ekki hægt að segja annað en að samkeppnin sé fyrirfram dauðadæmd eða í skötulíki.
Landsbankinn og Íslandsbanki bjóða muni betri vexti á verðtryggðum íbúðalánum,
heldur en Íbúðalánasjóður, og mun meiri takmarkanir eru á starfsemi hans heldur
en bankanna, þegar kemur að íbúðalánveitingum.
Nú vaknar sjálfsögð og eðlileg spurning; Hvað ætlar ríkið sér að gera, þegar
kemur að fjármálaþjónustunni? Er nauðsynlegt að hafa 2.300 starfsmenn (fjöldi
starfsmanna Landsbankans, Íslandsbanka og Íbúðalánasjóðs) á vegum hins opinbera
í að sinna hlutverki, sem augljósa mætti færa á eina hendi fremur en að hafa
það í þremur stofnunum?
Stjórnmálamenn hafa glímt við mörg stór verkefni, frá því að fjármálakerfið
hrundi haustið 2008. Endurskipulagning þess, eftir að hið opinbera fékk það
formlega að stóru leyti í fangið, nú í byrjun ársins, er svo sannarlega eitt
þessara stóru verkefna. Vonandi hafa stjórnmálamenn kjark til þess að leggjast
yfir stöðu mála, og sjá hvernig aðkoma hin opinbera er best útfærð á þessum
mikilvæga neytenda markaði.