Á Alþingi í morgun fór fram sérstök umræða um verðtrygginguna. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var upphafsmaður umræðunnar og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var til svara. Ellefu þingmenn tóku þátt í umræðunni, að Helga og Bjarna meðtöldum.
Þingmenn vöktu athygli á því í umræðunni að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók ekki þátt, og var raunar ekki einu sinni í þingsal, þegar umræðan fór fram. Hann hefur í tvígang neitað að ræða málið í sérstakri umræðu á þingi, og vísað á Bjarna Benediktsson. Þó hefur hann rætt um verðtrygginguna oft og víða annars staðar, líkt og aðrir framsóknarmenn.
Verðtryggingin og afnám hennar var eitt stærsta kosningamál og kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Þremur árum síðar bólar ekkert á þessu afnámi, sem þó var sagt einfalt og auðvelt í kosningabaráttunni. Það er alveg rétt sem þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu á þingi í dag, að þingmenn Framsóknarflokksins hafa gert Bjarna Benediktsson að blóraböggli í málinu. Þingmenn flokksins hafa reglulega talað um afnám verðtryggingar og mikilvægi afnámsins og þrýst á ríkisstjórnina í málaflokknum. Síðast fyrr í þessari viku komu þingmenn í ræðustól Alþingis til að lýsa því að lokinni kjördæmaviku hversu mikið verðtryggingin brenni á fólki.
Það vakti því athygli í bakherberginu að það var ekki nóg með að formaður flokksins hafi ekki tekið þátt, heldur tók aðeins einn þingmaður Framsóknarflokksins þátt í umræðunni, Willum Þór Þórsson.
Hvar voru framsóknarmennirnir? Af hverju voru þeir ekki mættir til að taka þátt í þessari umræðu um eitt þeirra stærsta baráttumál?