„Eitthvað annað“ heldur áfram að marka sér stað í íslenskri þjóðfélagsumræðu, sem eitt mikilvægasta hugtakið sem rætt er um.
Í upphafi kom þetta fram sem skilgreining á „einhverju öðru“ en álveri, þegar
rætt var um atvinnuuppbyggingu. Eftir því sem tíminn hefur liðið er „eitthvað
annað“ orðið að einhvers konar tákni fyrir alþjóðageirann, sem ekki á allt sitt
undir auðlindanýtingu í landinu heldur öðru fremur hugviti fólks.
Gott dæmi um geira sem telst tilheyra „einhverju öðru“ er hugbúnaðargeirinn og
þau fjölmörgu fyrirtæki innan hans, hér á landi, sem hafa verið að ná góðum
árangri á alþjóðlegum mörkuðum. Í gær sögðum við frá stórum sölusamningi sem
Gangverk gerði í Bandaríkjunum, upp
á 325 milljónir króna, en það eru mörg fleiri nærtæk dæmi til um mikla
grósku í þessum anga hagkerfisins.
Því meira af „einhverju öðru“, því betra.