Það er ekki hægt að sega annað en hagnaðartölur bankanna hafi vakið athygli í vikunni. Einkum og sér í lagi hagnaður Arion banka, sem ríkið á 13 prósent hlut í, en hann nam 49,7 milljörðum króna í fyrra. Það er upphæð sem nemur um 137 milljónum króna á hverjum degi ársins.
Hjá Íslandsbanka, sem ríkið á að fullu, var hagnaðurinn rúmlega 20,6
milljarðar.
Landsbankinn á síðan eftir að birta sitt uppgjör, en hann er stærstu bankanna.
Ríkið á hann að nánast öllu leyti, eða 98 prósent.
Það sem er mikið umhugsunarefni í þessu samhengi, er að hið endurreista
íslenska bankakerfi þjónustar fyrst og fremst íslenskan almenning og er rekið
nær eingöngu með fjármagni frá honum, hvort sem það er sparnaður eða lífeyrir.
Enn sem komið er eru tengingar Íslands við alþjóðlega fjármálamarkaði afar
veikar, og vaxtakjör á erlendum mörkuðum óhagstæð. Um leið og það er
áhyggjuefni, þá beinir það það líka sjónum að hinu innilokaða íslenska
bankakerfi sem ríkið á að stærstum hluta.
Í því eru yfir 600 milljarðar í eigin fé. Breytingar á fjármálakerfinu ættu að
skoðast með opnum huga, með það að markmiði að færa verðmætasköpun frá bönkunum
og út í atvinnulífið, í formi betri kjara og mátulegrar stærðar
bankageirans.