Núverandi ríkisstjórn er tíðrætt um fjölbreytni í atvinnulífinu. Alltof oft kemur þó í ljós að með fjölbreytni eiga þau við fleiri (og kannski fjölbreyttari) virkjanir og stærri álver. Má það sjá á því að það tók þau þrjú ár að fatta að auka þyrfti endurgreiðslur í kvikmyndaiðnaðinum, en gleyma því að engar endurgreiðslur eru í boði í öðrum skapandi greinum eins og hljómplötuupptöku, framleiðslu sviðsverka, hönnun fatnaðar og nytjahluta.
Skilningur þeirra á jákvæðum áhrifum skapandi greina virðist lítill. Opinber stuðningur við skapandi greinar er græn og sjálfbær fjárfesting. Allar rannsóknir og úttektir hafa sýnt fram á ótvíræðan hagrænan ávinning skapandi greina fyrir íslenskt atvinnulíf.
Skapandi greinar eru ekki föndur til dægrastyttingar – heldur hardcore fjárfesting til framtíðar, sem gengur ekki á takmarkaðar náttúruauðlindir. Skapandi greinar gera landið að aðlaðandi valkosti fyrir ungt fólk sem veltir því fyrir sér hvort það eigi að búa áfram á Íslandi eða flytja til annarra landa. Hvaða aðgerðir hafa stjórnvöld farið í til þess að gera Ísland að samkeppnishæfu landi við önnur lönd sem ungt fólk vill búa í?
Það er óskiljanlegt af hverju ekki hefur verið lögð meiri áhersla á að efla skapandi greinar hér á landi. Norðurlöndin eru gott dæmi það hvernig markviss stefna í þessum efnum hefur skilað miklum auði til samfélagsins og drifið áfram hagvöxt.
Björt framtíð hafði frumkvæði að því á síðasta kjörtímabili að koma í gegn fjárfestingarstefnu í þinginu, þar sem verulega var aukið í framlög til skapandi greina. Það sýnir hug ríkisstjórnarinnar, þessara gamaldags stóriðjuflokka, til skapandi greina, að eitt það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var að blása þessa áætlun af, án nokkurra raka. Og enn hjakkar ríkisstjórnin í sama farinu. Í þessum efnum skiptir máli hverjir stjórna.
Ísland ætti að vera miðstöð skapandi greina, enda er það staðreynd að þjóðin býr yfir óendanlegum sköpunarkrafti. Við höfum endalaus tækifæri til að verða enn betri.
Við í þingflokki BF sendum baráttukveðju til fólks í skapandi greinum og óskum landsmönnum til hamingju með vel heppnaðan HönnunarMars. Megi allir mánuðir ársins vera hönnunarMánuðir.