Neyðarlögin hafa nú raungerst og komið fram í
hagtölum. Erlendar skuldir hafa ekki verið jafn litlar m.v. þjóðarframleiðslu
síðan á Síldarárunum. Stöðugleikaframlög þrotabúa bankanna í ríkissjóð og
uppgjör Icesave-málsins í ljósi stöðu innlána sem forgangskrafna hafa einnig
snúið stöðu ríkissjóðs almenningi í hag með gríðarlega hagfelldum hætti.
Þensla er nú hafin á húsnæðismarkaði vegna lóðaskorts eins og 2004 og „gullæði“ ríkir í ferðaþjónustu. Framundan eru kosningar og þeim fylgja loforð. Ríkið er komið með bankakerfið í fangið á ný. Þess verður ekki vart að sár reynsla okkar 2008 birtist í markvissri nýrri stefnu. Það er bara litið til ESB, löggjafarvaldið er í raun komið þangað hvað viðskiptalífið varðar, þó okkur sé fullkomlega heimilt að útfæra okkar eigin reglur innan þess ramma sem þar er settur. Eftirfarandi tilvitnanir um banka og bankamenn hef ég valið saman til að vekja athygli á að sagan vill endurtaka sig. Þær eru ekki nýlegar, til að minna okkur á að sumir hlutir breytast ekki. Við eigum erfitt með að læra af reynslu annarra og gleymum jafnvel skaðbrennd að forðast eldinn.
Michael Foster 1689-1763
„Bankamenn hafa engan rétt til að skapa sér viðskiptavenjur á kostnað annars fólks" sagði Foster, sem var enskur dómari. Einhliða lánaskilmálar og gjaldskrár hafa lengi verið vandamál. Fákeppni hefur afleiðingar. Að afhenda einkaaðilum heila fákeppnisgrein á sama tíma veldur sjálftöku hagnaðar og bónusa. Þjóðin borgar þá kaupin fyrir fjárfestana. Verða þessi mistök endurtekin?
Thomas Jefferson 1743-1826
„Bankastofnanir eru hættulegri en óvígur her" sagði þessi forseti BNA. Bankar sem vinna fyrir sérhagsmuni eru stórhættulegir. Gríðarlegar eignatilfærslur hafa orðið um allan heim fyrir milligöngu banka, sem lána forréttindafólki sparifé almennings til að braska með. Þannig miðla þeir „eigin fé“ frá fjölda smárra viðskiptavina til fárra ríkra, en hafa enga heimild til slíks að lögum. Óbætanlegt samfélagstjón hefur orðið víða um lönd, m.a. hér, allt í skjóli samningsfrelsis og eignarréttar. Ekkert raunhæft hefur enn verið gert til að hindra að þetta geti endurtekið sig. Ekkert bendir til að bankar reyni að lagfæra tjónið. Allt bendir til að mistökin verði endurtekin þegar bankar hafa komist á ný í hendur einkaaðila.
David Ricardo 1772-1823
"Hið sérstaka hlutverk bankamanna verður ljóst um leið og þeir taka peninga annarra til eigin nota". Um 200 árum síðar, á litla Íslandi, tóku ráðandi hluthafar banka sparifé almennings traustataki. Fyrst lánuðu kaupendur Lands- og Búnaðarbanka hverjir öðrum. Eftir að einn stór hluthafi „skipti um lið“ og myndaði nýjan meirihluta í Íslandsbanka (síðar Glitni banka) varð „fjandinn laus“. Allir bankar tóku að lána öllum klíkunum, greiði gegn greiða. „Baugsbólan“ varð til, svo sem sjá má í II. hefti skýrslu RNA. Einn einstaklingur náði yfir 1.000 milljörðum kr. af annarra manna fé til sín og sinna fyrirtækja. Vonandi verða mistök af þessu tagi ekki endurtekin, en engin skýring hefur enn fengist á því af hverju FME greip ekki í taumana þegar bankarnir fóru langt yfir lögbundin mörk í þessum efnum.
Walter Bagehot 1826-1877
Bagehot var ritstjóri Economist og sagði mörg vísdómsorð um banka. „Stór banki hefur alltaf tilhneigingu til að verða stærri, og lítill til að verða minni“. Fákeppni og sjálftaka er afleiðingin, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur samkeppni. Samkeppnisyfirvöld hafa alltaf samþykkt samruna við skilyrðum. Á öllum helstu sviðum íslensks viðskiptalífs rikir nú fákeppni og sjálftaka, með góðfúslegu samþykki stjórnvaldsins, sem réttlætir óskir sínar um aukin fjárútgjöld með aukinni fákeppni. SE leggur stórfelldar sektir á „viðskiptavini“ sína, þessa sem hafa fengið góðfúslegt leyfi til fákeppni og slær sig með því til riddara í augum almennings og stjórnmálamanna sem geta nýtt sektarféð. Enginn lyftir einu sinni brúnum þegar fyrirtækin velta sektunum yfir í verðlagið strax í kjölfarið.
"Grundvallarlögmálið er það, að sérhver aðstoð við slakan banka í nútíðinni, er vísasta leiðin til að koma í veg fyrir að góður banki myndist til framtíðar" sagði Bagehot. Ríkisaðstoð við einkabanka er samt regla í veröldinni, þegar illa gengur. „Íslenska leiðin“ er algjör undantekning. Veröldin er nú að fara í niðursveiflu, e.t.v. með verðhjöðnun, sem Japan hefur ekki enn jafnað sig á síðan 1990. „Kreppan langa“ 1873-1896 í Bretlandi (og víðar) var vegna verðhjöðnunar. Öllum framkvæmdum borgaði sig að fresta. Verðhjöðnun er eitt erfiðasta viðfangsefni hagstjórnar. Gerist það munu bankar verða „á brauðfótum“ víða um heim. Okkar bankar eru nýlega „ormahreinsaðir“. Við ættum samt ekki að reikna með að „íslenska leiðin“ verði þoluð í annað sinn og ættum því að fara varlega.
„Sérhver bankamaður veit, að ef hann verður að sýna fram á að hann sé traustsins verður, sama hve góðar röksemdir hans eru, þá er traust hans horfið" er líka haft eftir honum. Hlutabréf Deutsche Bank hafa hrunið um 40% frá áramótum. Banki sem lætur viðskiptavinina borga þóknanir, sem vitað er að gefa bankamönnum bónusa, er fullur af „rusli“, því viðskiptavinir læra á kerfið. Bankinn beinir þá ekki fé til arðbærustu atvinnufyrirtækjanna heldur gerir hann einkum viðskipti sem gefa stjórnendum bónus. Slík mútukerfi má ekki líða en eru þó liðin. Umhugsunarefni er hvernig ástandið er í raun í stórbönkum innan ESB.
„Sérhver varfærin manneskja, sem er sýnt um tölur og hefur til að bera heilbrigða skynsemi, getur auðveldlega náð því að verða góður bankamaður" er enn haft eftir honum. Bankastarfsemi er „fag“, hvorki list né vísindi. Starfsemi innlánsstofnana (viðskiptabanka og sparisjóða) er önnur en fjárfestingarbanka, hún þarf annan kúltúr. Aðgreina verður þessa starfsemi og raða áhættutökunni rétt: Seðlabanki lánar innlánsstofnunum og setur þeim reglur. Innlánsstofnanir lána fjárfestingarbönkum og setja þeim skilyrði. Seðlabankar eiga ekki að hafa fjárfestingarbanka í viðskiptum. Stórhættulegt er að selja banka án þess að lagfæra þetta fyrst. Enginn góður hirðir opnar fjárhús sín fyrir úlfum.
„Ævintýri gerast oft í viðskiptalífinu, en varfærni, mér liggur við að segja uppburðarleysi, er hlutskipti bankamannsins“ er síðasta tilvitnunin í Bagehot í þetta skiptið. Þannig á þetta að vera. Bankarnir hafa nú ofgnótt eigin fjár, sem leiðir til leitar að hærri ávöxtun, sem aftur þýðir að meiri áhætta er tekin. Ekkert getur komið í staðinn fyrir varfærniskúltúr. Því hærri laun sem bankastjóri tekur sér, því hættulegri er bankinn samfélaginu.
Lancelot Holland 1808-1893
„Bankastarfsemi er einkennileg atvinnugrein“ sagði Holland bankastjóri á ársfundi Englandsbanka 1866 . „Hún er svo háð trausti, að minnstu grunsemdir geta sópað burt rekstrarárangri heils árs, rétt eins og ársuppskera fellur stundum á einni hélunótt". Munum við leyfa fjárfestum sem voru ráðandi hluthafar og/eða stjórnarmenn í bönkum fyrir „hrun“ að kaupa banka? Skiptir það máli að hafa náð að hlaupa frá borði fyrir „hrun“? FME þarf að rifja upp og birta skjal sem AGS lagði fram með leiðbeiningum eftir „hrunið“ um reglur í þessum efnum.
The Bulletin, Sydney 1893
„Traustur banki er stofnun sem getur mætt skuldbindingum sínum, aðeins á meðan enginn óskar eftir því, og raunar ekki nokkru sinni. Hann byggist á þeirri meginreglu að allir geti fengið peningana sína, ef þeir óska ekki eftir því, og að öðrum kosti ekki". Ábyrgð ríkisins á innlánum er ekki að ástæðulausu. Innlán eiga að vera forgangskröfur áfram, hvað svo sem ESB gerir. Útgáfu banka á „sértryggðum skuldabréfum“ (vafningum) þarf að skoða sérstaklega. Hún felur í sér „undanskot eigna“ frá þessum forgangi, sem kann að vera unnt að réttlæta tímabundið, en ekki til frambúðar.
Elbert Hubbard 1856-1915
„Almennt má staðhæfa að samfélagið hafi trú á bankamönnum sem hafa trú á samfélaginu." Hér er minnt á „kúltúr“, bankar eiga einkum að lána alvöru atvinnufyrirtækjum og heimilum vegna íbúðarhúsnæðis. Ekki út á brask til að hagnast á eignatilfærslum. Samt er þetta nú viðtekið um allan heim og er drifhjól samþjöppunar auðs, sem stefnir í fullkomið óefni. Engu máli skiptir hvað ESB gerir, við eigum að taka á þessu. Bankar vinna með almannafé, sparifé almennings. Það leggur þeim skyldur á herðar. Umræða um „samfélagsbanka“ er góð, vonandi er fólk að vakna til vitundar um að ESB-reglurnar vísa ekki endilega rétta leið.
Að lokum
Veldur hver á heldur. Bankastjórar viðskiptabanka og sparisjóða eru alltaf „hálf-opinberir“ starfsmenn og eiga að hegða sér þannig, því þeir eru að vinna með sparifé almennings. Öll ráðstöfun banka á fé á því að vera almenningi til heilla. Það er ekki heldur sama hverjir skipa stjórnunarstöður í eftirlitsstofnunum. Mestu skiptir starfsreynsla og þrek til að bregðast við hættuástandi. Áhersla á kyn, einhverja tiltekna menntun umfram aðra og flokksskírteini þurfa að lenda aftar í forgangsröðinni. Munum að nauðsynlegar valdheimildir skorti fyrir „hrun“, þær komu fyrst „á elleftu stundu“ með Neyðarlögunum. Þetta vissu bankastjórar og virtu eftirlitsstofnanir því ekki viðlits. Ráðherrar ráðguðust m.a.s. við mennina sem nú eru komnir í „hvíldarinnlögn“ við Grundarfjörð. Þetta þýddi vitaskuld að ríkisstjórnin sjálf sat bláeyg uppi með „svarta péturinn“ í spilinu. Stærsti lærdómur „hrunsins“ á að vera sá að landinu verður að stjórna. Afskiptaleysi og aðgerðarleysi voru í tísku en hafa gengið sér til húðar.
Höfundur er fyrrum bankastjóri sem lætur sér annt um þann árangur sem Neyðarlögin færðu okkur.