Hjól efnahagslífsins snúast hratt þessa dagana. Ásdís Kristjánsdóttir, hjá efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins, sagði í viðtali við Björn Bjarnason á sjónvarpsstöðinni ÍNN á dögunum, að hún hefði sjaldan eða aldrei séð stöðuna með jafn jákvæðum hagvísum og þessi misserin.
Atvinnuleysi mældist 3,8 prósent, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í dag, hagvaxtarhorfur þykja góðar, eignaverð, bæði á verðbréfamarkaði og á fasteignamarkaði, hefur hækkað mikið að undanförnu og launahækkanir eru framundan. Seðlabankinn hefur varað við þeim, en segir þó núna að stóra myndin sé góð og efnahagshorfur jákvæðar. Akkúrat núna sé rétti tíminn til að þess að losa um fjármagnshöft.
Síðan eru það áhrifin af miklum vexti í ferðaþjónustu en allt bendir til þess að um 1,7 milljónir ferðamanna komi til landsins á þessu ári, ef spár ganga eftir. Það sem af er ári hafa þær verið vanáætlaðar, svo augljóst er að mikill kraftur er í ferðaþjónustunni.
Gert er ráð fyrir að gjaldeyrisinnspýting vegna ferðaþjónustunnar geti orðið um 430 milljarðar á þessu ári, sem gerir geirann sem heild að lang stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar.
Þegar kemur að bönkunum, blasir við um margt ótrúleg staða. Íslenska ríkið á nú á milli 70 og 80 prósent fjármálakerfisins, um munar þar mest um ríflega 98 prósent hlut í Landsbankanum og 100 prósent í Íslandsbanka. Til viðbótar eru svo 13 prósent hlutur í Arion banka, auk Byggðastofnunar, LÍN og Íbúðalánasjóðs.
Samtök atvinnulífsins hafa af þessu áhyggjur. Það þarf ekki að koma á óvart, en í nýlegum pistli á vef SA er talað um hljóðláta ríkisvæðingu. Þessi staða hefur skapast á sama tíma og mikill óstöðugleiki hefur verið á sviði stjórnmálanna, og má reikna með að kosningar í haust, muni meðal annars snúast um hvernig tekið verður á þessari stöðu.
Fjármálakerfið er augljóslega stærsta málið, og þar togast á sjónarmiðin um að breyta kerfinu lífið en selja eignarhluti í ríksins í bönkum og fá pening í ríkiskassann. Eða breyta kerfinu fyrst, og endurskipuleggja svo eignarhaldið. T.d. með því að aðskilja með lögum viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, og skera á milli starfsemi sem nýtur óbeinnar eða beinnar ríkisábyrðgar, og síðan starfsemi sem þarf ekki á neinni slíkri ábyrgð að halda.
Enn sem komið er, hefur enginn stjórnmálaflokkur útfært skýra stefnu um þetta
mál, sem verður að teljast með nokkrum ólíkindum. Mörg sjónarmið eru uppi,
innan stjórnmálaflokkanna, en ljóst er að mikil vinna bíður þeirra við að móta
skýra stefnu í þessum málum. Kjósendur eiga heimtingu á að vita hvað flokkarnir vilja gera, þegar kemur að fjármálakerfinu. Á þeim tæplega átta árum sem liðin eru frá allsherjarhruni fjármálakerfisins, þá hefur ekki verið mótuð skýr stefna um hvernig fjármálakerfi á að vera í landinu til framtíðar litið. Nema það teljist vera stefna útaf fyrir sig, að breyta litlu í lögum og reglum og vona að hlutirnir endurtaki sig ekki.
Það er ekki víst að slík stefna verði til bóta.