Grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem birtist í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins 30. apríl er fyrir margra hluta sakir merkileg.
Margt af því sem hann telur Davíð til tekna er satt og það verða jafnvel svörnustu andstæðingar hans að viðurkenna. Það var vissulega kominn tími til að rýmka um ýmislegt eins og verslun, fjármagnsflæði o.fl. þegar Viðeyjarstjórnin tók við völdum. En viðurlögin fylgdu ekki með og því fór sem fór, enda minnir mig að Davíð hafi sagt í sjónvarpsviðtali að hann hafi ekki grunað hvernig færi. Græðgisvæðingin er iðulega afleiðing hömluleysis í viðskiptum.
Þá var afleitt hvernig Davíð lét Halldór Ásgrímsson kúga sig í Schengenmálinu og EES-samningurinn er með verri glappaskotum Íslendinga.
Greinin fjallaði um Davíð Oddsson og það sem allvel tókst í valdatíð hans. Því var sleppt að minnast á glappaskot Framsóknarflokksins eins og þegar framleiðsla og sala orku var aðskilin þótt Íslendingar væru eyþjóð og þyrftu ekki að kokgleypa hvað sem kom frá Evrópusambandinu, enda var Davíð ekki ráðherra orkumála og því ekki ástæða til að nefna þetta.
Tóm biðstofa og einangrunarstefnan
Þá segir í grein Hannesar að biðstofa forsætisráðherra hafi tæmst þegar farið var að úthluta ýmsum gæðum svo sem gjaldeyri með öðrum hætti en hinum pólitíska. Einhvern veginn fór þó svo að Davíð talaði aldrei við forystumenn heildarsamtaka fatlaðra og fram yfir árið 1993 voru lítil sem engin samskipti við Alþýðusamband Íslands að sögn Benedikts Davíðssonar. Skattleysismörkin, eins og Hannes Hólmsteinn lofar þau, bitnuðu verst á þeim sem minnst höfðu og þáverandi fjármálaráðherrar virtust ekki skilja um hvað málin snerust. Var öllu snúið upp í gaman og skens þegar reynt var að ræða við þá. Á dögum Viðeyjarstjórnarinnar hófst í raun einkavæðing heilbrigðiskerfisins og kerfisbundnar álögur á aldrað fólk og fatlað. Það er sérkennilegt að nú, þegar á að breyta greiðsluþátttöku sjúklinga, situr ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks við völd eins og árið 1995 þegar atlagan hófst fyrir alvöru að kjörum þeirra sem minnst höfðu á milli handanna. Og enn eru samtök fatlaðra ekki virt samráðs.
Ógnvaldurinn
Davíð hafði einhvern veginn þá framkomu að sumir hræddust hann. Hann líktist núverandi Tyrklandsforseta að því leyti að hann þoldi illa gagnrýni og tók ýmislegt óstinnt upp ef honum þótti vegið að sér. Má nefna sem dæmi smásöguna um sölu og flutning Esjunnar sem séra örn Bárður Jónsson vogaði sér að birta og hlaut starfslok fyrir.
Undirritaður upplifði þennan hamagang er hann tók við sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands í upphafi þessarar aldar. Þá ríkti í raun heiftarástand millum bandalagsins og ríkisstjórnarinnar og mátti vart greina hvorum væri verr við Öryrkjabandalagið, Davíð eða Halldóri Ásgrímssyni. Halldór baðst þó vægðar eftir að ríkisstjórnin hafði komið hefndarlögunum gegn bandalaginu í gegn á Alþingi í janúar 2001, en síðan var flest af því, sem Halldór hét að beita sér fyrir, svikið.
Þá voru tilraunir Davíðs til afskipta af innri málefnum bandalagsins honum til lítils sóma.
Ég held að einn af góðkunningjum Davíðs, góður og gegn sjálfstæðismaður, hafi komist nærri kjarna málsins, er hann kom að máli við mig og spurði hvort við Öryrkjabandalagsmenn vildum að komið yrði á fundi með þeim Davíð og Garðari Sverrissyni. Sagðist hann óttast í hvaða farveg samskiptin væru komin. „Davíð hefur ævinlega eitthvert tromp uppi í erminni sem hann kastar fram þegar síst skyldi. Og ég óttast að hann kasti slíku trompi þegar þið eruð óviðbúnir og getið ekki varið ykkur.“
Það urðu orð að sönnu enda hrósaði einn af fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Davíðs sér af því að enginn tæki lengur mark á Öryrkjabandalaginu „því að við sáum um að planta réttum manni á réttan stað á réttum tíma.“
Davíð Oddsson má eiga það sem hann á og njóta sannmælis þar sem það á við. En heiftrækni samfara langrækni eru ekki eðlisþættir sem stjórnmálamenn og ritstjórar eiga að rækta með sér.
Undirritaður óskar Davíð Oddssyni góðrar og friðsamrar elli, er hann hættir sem ritstjóri Morgunblaðsins í upphafi næsta árs.
Greinarhöfundur er fyrrum formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins og naut þeirra forréttinda að starfa sem blaðamaður á Morgunblaðinu í tvö sumur.