Þar sem ég gekk í 1. maí göngunni niður Laugaveginn umkring fólki sem er annt um land sitt, var mér hugsað til þeirra umbrotatíma sem nú fara í hönd. Okkur finnast kannski breytingarnar ganga hægt, en þegar við lítum til baka eftir tíu ár sjáum við hversu mikið hefur áorkast, til hins betra ef við höldum rétt á spilunum.
Með hruninu árið 2008 fundum við á eigin skinni hvað skiptir mestu máli. Við vildum ekki lengur búa í samfélagi þar sem græðgi, spilling og óhóf réði för, heldur vildum við öryggi, gagnsæi, traust, samkennd og virðingu. Að fólk skipti meira máli en peningar, að samvera sé mikilvægari en munaður og að hagsmunir samfélags vegi þyngra en hagræðing og hagvöxtur. Að komið verði á móts við alla, unga og aldna, fatlaða sem ófatlaða, konur og karla, frumkvöðla sem launþega. Við vildum nýtt og betra samfélag. Nýtt Ísland.
Á stórmerkilegum þjóðfundi með þverskurði þjóðarinnar voru valin grunngildi til að byggja á hið nýja samfélag. Gildin sem valin voru, traust, virðing, réttlæti, lýðræði, jöfnuður, heiðarleiki, fjölskylda, kærleikur, sjálfbærni ofl., sýna berlega hvert við viljum stefna.
Eftir áratuga tilraunir tókst loksins að fá Alþingi til að koma á stjórnlagaþingi sem semja skyldi nýja og löngu tímabæra stjórnarskrá. Framkvæmd stjórnlagaþingsins sannaði að við getum kosið hæfa einstaklinga á þing sem vinna saman að heill lands og þjóðar. Þar er komin fyrirmynd að framtíðar Alþingi hins nýja Íslands, þar sem menn og konur starfa saman og finna lausnir til hagsbóta fyrir heildina.
Nýja stjórnarskráin er nauðsynlegur hlekkur í uppbyggingu hins nýja Íslands. Formælendur hennar benda á ímyndaða agnúa því þeir vilja ekki breyta kerfinu. Þeir gætu nefnilega misst spón úr aski sínum. Eflaust er eitthvað sem við eigum eftir að laga í nýju stjórnarskránni, enda eiga þær ekki að vera greiptar í stein. Þvert á móti á að aðlaga þær breyttum tímum og nýjum viðhorfum. Ef aldrei mætti breyta stjórnarskrám væru konur ekki með kosningarétt og Ísland ennþá konungsríki.
Nú er svo komið að hún er í heljargreipum kerfis sem neitar að breyta sjálfu sér. Til að breyta kerfinu þarf að velja fólk í öll æðstu embætti sem er ekki hluti af kerfinu. Það þýðir ekki að kjósa fólk sem vill ekki breyta neinu, því þá breytist ekki neitt. Við þurfum hæft fólk sem veit hvert við erum að fara og þorir að framkvæma. Við þurfum leiðtoga sem veit hvernig hið nýja Ísland lítur út.
Einungis með því að sýna samstöðu, hugrekki og þor getum við breytt samfélaginu þannig að við séum stolt af því. Því samfélagið er nefnilega við og við erum samfélagið.
Orðin í Nationalinum, einkennissöng 1. maí, eiga hér svo sannarlega við: „Með samstöðu í sveit og bæjum, við sigra munum græðgi og neyð. Með sigrinum við sáum fræjum, sem að varða nýja leið.“
Höfundur er þjóðfræðingur, rithöfundur og forsetaframbjóðandi.