Á föstudaginn í síðustu viku og mánudaginn í þessari viku, gufuðu tæplega 50 milljarðar upp í kauphöll Íslands, þegar gengi hlutabréfa allra fyrirtækja féll nokkuð mikið. Dagana á eftir hefur gengið sveiflast til og frá nálægt því gengi sem var eftir þetta fall. Markaðsvirði skráðra hlutabréfa á aðallista og First North er ríflega þúsund milljarðar. Það er upphæð sem nemur tæplega hálfri árlegri landsframleiðslu Íslands.
Þó hlutabréfamaðurinn á Íslandi sé dvergvaxinn í alþjóðlegum sambanburði, þá er hann mikilvægur hluti af ávöxtunarmarkaði fyrir fjármagn á Íslandi. Endurreisn hans, eftir hið fordæmalaus hrun haustið 2008, hefur verið gengið nokkuð vel, þó aðstæðurnar séu óvenjulegar. Fjármagnshöftin eru ekki góð fyrir hlutabréfamarkaði, og augljóslega hafa bjagandi áhrif á eignaverð.
Þegar um þau er losað, getur augljóslega komið til mikillar sveiflu á markaðnum. Líklega niðursveiflu, en það fer þó allt eftir útfærslunni og losun hafta. Lífeyrissjóðir landsins eru stærstu fjárfestarnir á íslenskum hlutabréfarmarkaði og eiga meira en 40 prósent hlutafjár.
Stefna þeirra mun skipta miklu máli. Margir sjóðanna hafa þegar ávaxtað fjármuni sjóðsfélaga vel með þátttöku í endurreisn hlutabréfamarkaðarins, og spurningin er hvort losun hafta mun hafa áhrif á fjáfestingastefnu þeirra. Það hlýtur að vera freistandi í einhverjum tilvikum að selja hlutabréf með miklum hagnaði, og færa fjármuni á erlenda markaði, þegar það verður hægt, til að dreifa áhættu.
Annað atriði sem einnig getur haft mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn er fyrirhuguð eignasala ríkisins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað fyrir því að ríkið muni kappkosta að selja eignir, sem það fékk í fangið frá kröfuhöfum föllnu bankanna. Það þarf ekki mikinn snilling til að sjá það, að lífeyrissjóðir landsmanna eru helstu kaupendur af eignunum sem ríkið hyggst selja. Erlendir fjárfestar hafa ekki beðið í röðum eftir því að fá að kaupa íslenskar eignir til þessa, svo ólíklegt verður að teljast að það muni ganga vel að draga þá til landsins.
Spennandi verður að fylgjast með því hvaða áhrif þessi miklu tímamót, sem fylgja losun hafta og sölu á ríkiseignum, munu hafa á hlutabréfamarkaðinn. Í fyrra hækkuðu bréfin á markaðnum um 43 prósent. Það sem fer hratt upp getur vel farið hratt niður líka. En eins og alltaf þegar hlutabréfaverð er annars vegar, þá er vandi að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér.