Guðni Th. Jóhannesson, doktór í sagnfræði og dósent við Háskóla Íslands, tilkynnti um framboð sitt til forseta Íslands í gær. Í könnunum hefur mælst mikið fylgi við hann, jafnvel þó hann hafi ekki verið búinn að tilkynna um framboð.
Guðni hefur rannsakað íslensk stjórnmál á ferli sínum, bæði sem rithöfundur og fræðimaður, og hefur á sér gott orð fyrir skelegga og fagmannlega framgöngu.
Eins og kannanir hafa verið að sýna að undanförnu, þá bendir margt til þess að kosningabaráttan geti þróast á þann veg, að um tveggja turna tal milli Guðna og Ólafs Ragnars verði að ræða. Sú ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig fram á nýjan leik, hefur haft mikil neikvæð áhrif á framboð annarra, enda má segja að mörg þeirra framboða sem fram komu hafi tekið mið af því að nú væru nýir tímar, þar sem Ólafur Ragnar væri að stíga af sviðinu eftir 20 ára forsetatíð.
Ólafur Ragnar er klókur og greindur, og mun vafalítið láta til sín taka í kosningabaráttu, þegar hún stendur sem hæst. Guðni getur hins vegar sigrað hann, og hefur virðingu fólks úr öllum stjórnmálaflokkum og stéttum, ef marka má stuðningsyfirlýsingar við hann á samfélagsmiðlum.
Spennandi tímar framundan.