Hvað þýðir framboð Davíðs Oddssonar fyrir forsetakosningarnar 25. júní næstkomandi? Það er erfitt að fullyrða um það, en margir komu með tilgátur á samfélagsmiðlum í gær. Sumir töldu Davíð eingöngu hafa farið fram til að senda Ólafi Ragnari þau skilaboð að þetta væri nú orðið gott, eftir 20 ár. Svo fór að Ólafur Ragnar dró framboð sitt til baka.
Davíð hefur sjálfur sagt, að Alþingi sé „veikt“ þessi misserin og það sé nauðsynlegt að hafa mann í brúnni á Bessastöðum sem hafi reynslu og þekkingu til að grípa inn í, ef þess þarf. Greinilegt er að Davíð telur engan betri til þess að sinna því, en hann sjálfan, því annars hefði hann ekki ákveðið að koma aftur á svið stjórnmálanna, eftir að hafa verið ritstjóri Morgunblaðsins í sex og hálft ár.
Spennandi verður að fylgjast með því, hvernig þjóðin tekur þessari endurkomu Davíðs og síðan ákvörðun Ólafs Ragnars um að hætta við fyrirhugað framboð. Vel má vera, að þjóðin líti að þessi tímamót sem tækifæri til að fá ferska vinda á Bessastaði og forseta af annarri kynslóð en Ólafur Ragnar og Davíð tilheyra.
En sex vikur eru langur tími í pólitík, og eins og kosningabaráttan hefur verið til þessa, þá er ekki hægt að útiloka neina óvænta leiki. Svo ótrúleg hefur atburðarásin verið.
Guðni Th. Jóhannesson er með langsamlega sterkustu stöðuna í augnablikinu, samkvæmt skoðanakönnunum, en þær segja lítið um hvernig staðan verður á kjördag. Davíð á líklega eftir að taka upp Icesave-sverðið og reyna hvað hann getur að raka til sín fylgi. Það kemur svo í ljós hvernig það gengur.