Finna má nöfn fjölmargra áberandi manna úr íslensku viðskiptalífi fyrir hrunið, í gagnagrunninum um Panamaskjölin. Þetta kemur ekki á óvart, en í gagnagrunninum er þó ekki hægt að glöggva sig á bakgrunni félaga og viðskipta, nema með umtalsverðri rannsóknarvinnu. Eins og Kjarninn gerði, í samstarfi við Reykjavík Media, þegar viðskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur voru til umfjöllunar.
Eitt af því sem velta má fyrir sér nú, í ljósi þeirrar gjaldeyrisþurrðar sem hagkerfið var í eftir allsherjarhrun fjármálakerfisins haustið 2008, hvort ekki hefði átt að reyna meira að fá þetta fólk til að leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags, þegar ljóst var að almenningur þyrfti að búa við fjármagnshöft og þá gerviveröld sem þau bjóða upp á.
Hreinlega að biðla til þess, að koma með peningana heima. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gerði þetta, og sagði jafnframt að alltaf væri hægt að rekja slóð peninga og skattsvika. Það yrði svo sannarlega gert. Voru þó engin fjármagnshöft í Þýskalandi eins og hér á landi.
Vel má hugsa sér, að það hefði verið skynsamlegt að þrýsta meira á eignafólk til að koma að uppbyggingu hagkerfisins, ekki síst í ljósi þess haftaumhverfis sem hefur einkennt stöðu mála hér, allt frá því lögfestingu þess í nóvember 2008.
Það hefði síðan átt að þrýsta enn meira á fyrrnefndar aðgerðir, vegna þeirrar gjaldþrota- og skuldaslóðar sem margt þetta fólk, sem stundaði viðskipti í gegnum aflandsfélög, skildi eftir sig, í eignarhaldsfélögum og fyrirtækjum. Þar sem lítið sem ekkert fékkst upp í himinháar kröfur.