Fjölmiðlar tröllríða nú umfjöllun um forsetaframboðið með skoðanakönnunum um hvernig stór hluti þjóðarinnar virðist leggjast á sveif með einum frambjóðandanum, Guðna Th. Jóhannessyni. En lítum aðeins á aðdragandann.
Guðni var lítt þekktur peysufræðimaður þar til ákveðin samfélagsöfl ákváðu að þetta væri „rétti maðurinn“ í embættið. Nokkrum vikum fyrir tilkynningu framboðsins birtist hann ítrekað á skjám landsmanna í fréttaþáttum og spjallþáttum ríkisfjölmiðilsins, nú mættur í forsetaleg jakkaföt og útskýrði hinn pólitíska hildarleik forsetaembættisins og hversu mikilvægt það væri að forseti sæi við óstýrlátum stjórnmálamönnum.
Þá var stofnuð Facebooksíða sem almenningur var hvattur til að líka við í þeim tilgangi að hvetja manninn til að bjóða sig fram. Skoðanakannanir voru pantaðar með litlu úrtaki þar sem spurt var hvort fólk myndi kjósa hann eða sitjandi forseta eða álíka þröngar spurningar sem birtu hann í góðu ljósi.
Svo loksins steig prinsinn fram, fullmótaður og fagurlega skapaður af fjölmiðlum. Að baki framboðinu eru vel smurðar kosningavélar stjórnmálaflokka sem vita nákvæmlega hvernig er hægt að spila með trúgjarnt fólk.
Grunlaus almenningur stökk á vagninn og hugsaði að þarna væri loksins kominn maður sem gæti varið það gagnvart fjármálaöflum og valdaöflum.
Vandamálið er bara að það voru einmitt valdaöflin sem bjuggu til vinsældir þessa manns. Þetta er eflaust góður maður sem lét undan þrýstingi eins og flestir myndu gera. Þessi pistill beinist ekki gegn honum, heldur valdinu sem stendur að baki honum.
Fjölmiðlar hafa gífurlegt vald. Þeir geta flett ofan af spillingu og græðgi, veitt valdhöfum aðhald, verið málsvari fólksins og upplýst þjóðina um þá valmöguleika sem í boði eru.
En þeir hafa líka vald til að níða skóinn af einstaklingum og eyðileggja fyrir þeim sem vilja samfélaginu vel. Þeir hafa vald til að halda almenningi niðri með því að ráðast af dómhörku, hroka og yfirlæti á hvern þann sem rís upp úr meðalmennskunni. Með því að finna höggstað á fólki og gera það tortryggilegt, grafa þeir undan boðskap þeirra sem vilja einungis benda á leiðir til að bæta samfélagið.
Forsetaframbjóðandi sem valdhafar skapa í þeim eina tilgangi að viðhalda núverandi kerfi er ekki sjálfstæður og óháður. Forseti getur ekki staðið með fólkinu þegar hollusta hans liggur hjá valdhöfum.
Við þurfum ekki undanlátssaman fulltrúa valdsins á forsetastól. Við þurfum manneskju sem vinnur fyrir fólkið. Manneskju sem er málsvari almennings, vill bæta samfélagið og koma nýju stjórnarskránni í gegn. Forseti á að sækja vald sitt til almennings, ekki fjölmiðla eða ríkisstjórnarflokkanna. Samfélagið breytist aðeins ef við stöndum með breytingunum og veljum fulltrúa almennings í embætti forseta.
Höfundur er þjóðfræðingur, rithöfundur og forsetaframbjóðandi.