Framsýn stéttarfélag benti á ágætan punkt á vef sínum á dögunum, sem snéri að verðlagningu verslana.
Í frétt á vef Framsýnar var frá því greint, sem var til umræðu á dögunum, að niðurfelling tolla hefði ekki skilað sér í lægra verði í verslunum. „Mældust þessar aðgerðir vel fyrir meðal almennings enda átti þessi lagabreyting að skila 13% lægra verði til neytenda að meðaltali af þeim vörum sem báru tolla áður,“ sagði í fréttinni.
Samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ þá hafa þessar aðgerðir ekki skilað því sem til var ætlast. Verslanir hafa greinilega hækkað verð eftir útsölur og er hækkunin meiri en gera mátti ráð fyrir. Fyrir utan niðurfellingu tolla hefur gengi krónunnar styrkst töluvert á undanförnum mánuðum sem hefði átt að hjálpa til við lækkun verðs á fatnaði og skóm. „Raunin er að verslanirnar eru einfaldlega að taka stærri hluta af kökunni,“ segir í frétt Framsýnar.
Niðurstöður verðlagsnefndar ASÍ má lesa í lengra máli hér, á vef ASÍ.
Í ljósi þessa má velta fyrir sé hvað gerist ef tollar á landbúnaðarvöru verða felldir niður eins og mikið er talað fyrir víða í samfélaginu? Er við því að búast að eitthvað annað gerist með landbúnaðarvörur en að verslunin fái stærri hluta kökunnar í sinn hlut eins og raunin er með fatnað og skó? spyr Framsýn.
Það er eðlilegt að spyrja að þessu. Frelsi í verslun er baráttumál fyrir neytendur, en þó aðeins ef verslunin í landinu sýnir ábyrgð og glögg merki um samkeppni, neytendum til heilla, sjáist. Því miður er nauðsynlegt að veita fyrirtækjum í smásölurekstri mikið aðhald og benda á það, þegar lagabreytingar, sem áttu að skila neytendum ávinningi, eru ekki að gera það.
Það er ekki nóg að segja, að niðurfelling tolla skili ávinningi fyrir neytendur. Það verður líka að framkvæma hlutina þannig í verki.