Ég sá í vikunni umræðu um þorskastríðin milli frambjóðenda en einhvernveginn endaði umræðan árið 1976. Það er full ástæða til að taka upp þráðinn og horfa lengra fram á við. Eru einhver þorskastríð framundan?
Þegar landhelgi Íslands var færð út þá varð Ísland miklu meira haf heldur en land. Landhelgin er nefnilega sjö sinnum stærri en sjálft Ísland. Þess vegna er spurningin ,,hefurðu migið í saltan sjó?" alveg gjaldgeng, börnin okkar munu nefnilega ekki aðeins erfa landið - heldur munu þau erfa hafið. Forsetinn er ekki bara forseti Íslands, hann er forseti hafsins. Við Íslendingar veiðum 1% af öllum fiski í heiminum og líklega höfum við aðeins nýtt 1% af öllum þeim tækifærum sem búa í hafinu kringum Ísland. Tækniframfarir leysa af hólmi vinnuafl á sjó og landi en vöxturinn í framtíðinni verður að mestu leyti gegnum aukna verðmætasköpun með rannsóknum og markaðsvinnu.
Í fyrirlestrum mínum í skólum og víðar á síðustu árum hef ég notað myndir af fiskum frá Jóni Baldri Hlíðberg og spyr hvort menntakerfið okkar sé miðað við umhverfi okkar og framtíðarmöguleika. Hafa börn okkar áhuga á fiskum? Höfum við það að markmiði? Hvernig eigum við að tengja börn við hafið, þegar þau alast upp í úthverfum með litla snertingu við sjóinn, sjómennsku eða sjávarútveg? Hafið ætti að vera börnum landsins innblástur, þau eiga að hafa æði fyrir fiskum, þau eiga að fyllast löngun til að verða kafarar, sjómenn og sjávarlíffræðingar. Það væri andlega örvandi og hvetjandi námslega en líka mikilvægt fyrir sjávarbyggðir, vegna þess að þær þurfa að laða til sín börnin sem nú alast upp í Kórahverfi.
Börnin sem munu erfa hafið munu taka við fiskveiðistjórnun og veiðiflotanum en þau þurfa líka að berjast gegn mengun, plasti í höfum, súrnun sjávar og öðrum mikilvægum hagsmunamálum. Hvað kemur það forsetanum við? Jú forsetinn getur tengt saman fólk innanlands og utan og getur tekið þátt í að móta framtíðarsýn. Hann getur tengt saman fyrirtæki, stofnanir og skóla vegna þess að hann er þjóðkjörinn og hann má og á að tala við alla. Hann getur farið í köfun með Verkmenntaskólanum í Neskaupstað eða 10. bekk í Álftanesskóla og vakið athygli á því að störfin sem þessir krakkar munu vinna séu ekki endilega til í dag, þau munu byggjast á því sem kveikir áhuga þeirra og hugmyndum þeirra í framtíðinni.
Landhelgin er mikilvægt mál, þorskastríðum er lokið en þroskastríðið felst í því að útvíkka landhelgina innra með okkur og skynja tækifærin sem uppgötvast einungis með því að beina hæfileikum framtíðarinnar í réttan farveg.