Tölur Hagstofu Íslands frá því í morgun, sem sýna þróun kaupmáttar launa, benda eindregið til þess að mikill þróttur sé nú í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur launa hefur aukist um 11,6 prósent, að meðaltali, á síðustu tólf mánuðum.
Það er mikil aukning á skömmum tíma, og greinilegt að miklar launahækkanir hafa skilað sér í veskið hjá landsmönnum. Ennþá hefur lítið sem ekkert sést til verðbólgudraugsins, sem í gegnum síðustu áratugi, hefur yfirleitt farið á stjá eftir að samið hefur um launahækkanir sem hafa verið töluvert umfram framleiðni, samkvæmt reiknimódelum Seðlabanka Íslands.
Verðbólguspár Seðlabanka Íslands hafa engan veginn gengið eftir, en hann spáir nú sem fyrr, að verðbólgan muni aukast á næstu misserum. Ástæðan eru launahækkanir, og svo er erfitt að segja til um hvernig lokahnykkurinn í áætlun stjórnvalda um losun hafta mun ganga og hvort áhrifin verða neikvæð eða jákvæð á verðbólguna. Hún mælist nú 1,6 prósent.
En staðan núna ætti að sýna hversu það er mikilvægt, að halda verðbólgunni í skefjum. Það er ekki tilviljun að kaupmáttur launa skuli vaxa, þegar það tekst að halda verðbólgunni langt undir 2,5 prósent markmiði.
Stóra spurningin er hvort það takist að halda verðbólgunni í skefjum, þegar losað hefur verið um höftin, eða hvort það kemur í ljós, að án þeirra sé erfitt að stýra málum með hagfelldum hætti.
Krefjandi tímar framundan, og þrátt fyrir jákvæð merki og mikinn kraft, einkum í ferðaþjónustu, þá þarf að halda vel á spilunum svo að verðbólgudraugurinn komist ekki af stað með látum.