Í baráttunni gegn heimilisleysisvandanum hefur því lengi verið haldið fram að það þurfi fyrst að takast á við þau vandamál sem blasa við útigangsfólki t.d. geðraskanir, áfengis- og eiturlyfjafíkn áður en þeim er veitt niðurgreitt húsnæði.
Nú er því samt sem áður haldið fram að þetta sé ekki rétta leiðin, talið er að betra sé að gefa fólki fast húsnæði án þess að það hangi einhvað fleira á spýtunni.
Þessi hugmyndafræði kallast „housing first” eða „húsnæði fyrst”. Samkvæmt nýlegri rannsókn í Kanada var sýnt fram á að „húsnæði fyrst” virkar betur en hin staðlaða nálgun. Í 63-77% tilfella hélt utangarðsfólk heimilum sýnum með „húsnæðis fyrst” nálgun. Aftur á móti héldu aðeins 24-39% húsnæði sínu með staðlaðri nálgun, en þessi úrelta nálgun er því miður ríkjandi á Íslandi.
„Húsnæði fyrst” nálgunin var fyrst kynnt til leiks árið 1992 af sálfræðingnum Sam Tsemberis.
Þegar Tsemberis rannsakaði ástand heimilislausra komst hann að þeirri niðurstöðu að það eru tvær tegundir að heimilislausum. Tímabundnir og langavarandi. Tímabundnum heimilislausum er hægt að hjálpa með tiltölulega einföldum leiðum. En langvarandi heimilislausir, sem er um 17% af utangarðsfólki, eru í þessari stöðu vegna dýpri vandamála eins og til dæmis misnotkun á áfengi, eiturlyfja eða vegna geðraskana.
Tsemberis áttaði sig á því að neyða fólk til þess að hoppa yfir hindranir áður en þau fá samastað væri alger klikkun. Það segir sig svolítið sjálft að þeir sem eru langvarandi heimilislausir fara oftar í fangelsi og slysamóttöku en hin almenni borgari. Að eiga engan samastað eru eflaust mjög stressandi aðstæður fyrir hvern sem er að vera í. Í athvörfum getur þú til dæmis ekki lokað dyrunum, og ef þú getur fundið þér samastað eru miklar líkur að þú lendir á ábyrgðarlausum húsráðanda sem er nokkuð sama að öll tilskyld leyfi séu uppfyllt, sem dæmi má nefna fólk sem neyðist til þess að búa í ósamþykktum iðnaðarhúsnæðum. Ofan á þetta allt, geta þau ekki einu sinni hvílt sig vegna álags og stress.
„Ég get sofið” sagði einn þiggjanda „húsnæði fyrst” í Washington ríki í Bandaríkjunum. „Guð minn góður, ég get sofið.”
Tsemberis lagði fram þá tillögu að veita öllum langvarandi heimilislausum stað til þess að búa á skilyrðislaust og síðan byggja fótfestu með því að bjóða aðra félagslega aðstoð. En það er einmitt þannig sem húsnæði fyrst virka á flestum stöðum, þeir sem eru langvarandi heimilislausir eru greindir og fé er safnað saman til þess að niðurgreiða fyrir þá íbúð. En þeir sjálfir þurfa að greiða um 30% af leigunni sjálfir, annað hvort með pening sem þeir fá fyrir vinnuframlag eða með félagslegum bætum. Og þegar þau hafa varanlegan og skilyrðislausan stað til þess að búa á geta þau byrjað að vinna í vandamálum sínum, til dæmis að komast yfir fíkn sína eða hvaða aðra áskorun sem þau þurfa að takast á við.
Annar þiggjandi „húsnæðis fyrst” hafði þetta að segja: „Ég sakna ekki að búa á götunni, ég þakka Guði fyrir á degi hverjum að ég sé hér”.
Þegar „húsnæði fyrst” var innleitt í Utah ríki í Bandaríkjunum þá fækkaði langvarandi heimilislausum um 91% og í dag er það vandamál nánast úr sögunni í borginni. Við þurfum að átta okkur á því að þetta snýst að miklu leyti um sjálfstæði fyrir einstaklinga í þessari stöðu, og um leið og þú gefur þeim 100% sjálfstæði hafa þau fyrst áhuga á að bæta sjálfan sig.
Eitt það frábærasta við „húsnæði fyrst” er að þetta sparar félagskerfinu mikið fé. Að veita langvarandi heimilislausum húsnæði skilyrðislaust gerir líf þeirra mun stöðugara, þar af leiðandi sparast fé sem þau taka frá öðrum félagslegum kerfum.
Hér að neðan er mynd sem sýnir hvað langvarandi heimilislausir kosta félags- og heilbrigðiskerfi í New York ríki í Bandaríkjunum. Myndin sýnir einnig að lang ódýrast er fyrir skattgreiðendur að innleiða „húsnæði fyrst”.
Ég skora hér með á ríkisstjórnina að gera kostnaðaráætlun um hvað langvarandi heimilislausir kosta félags- og heilbrigðiskerfin mikið fé á ári hverju og hvað þau muni kosta samfélagið ef „húsnæði fyrst” verður að veruleika á Íslandi. Ljóst er vandamálið verður ekki öðruvísi leyst en með samvinnu sveitarfélaga, en heildstæð kostnaðaráætlun er forsenda þess að hægt er að byrja samtalið.
Höfundur er framkvæmdastjóri.