Skattlagning er sígilt viðfangsefni stjórnmálanna enda er það í senn pólitískt og heimspekilegt viðfangsefni sem snýst um grunn samfélagsgerðarinnar.
Meginhlutverk skattkerfisins er ekki einungis að tryggja tekjur til að standa undir samneyslunni eða grunnþjónustunni og tryggja þannig farsæld allra. Skattkerfið getur líka þjónað efnahagslegum markmiðum og er mikilvægt tekjujöfnunartæki, þannig að með ólíkum þrepum sé tryggt að hinir tekju- og eignameiri leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem minna hafa á milli handa. Þá má nýta skattkerfið til að stýra verðlagningu á tilteknum vörum, til dæmis með lágum virðisaukaskatti á mat í þágu tekjulágra sem nýta hærra hlutfall sinna tekna í matvæli en hærri virðisaukaskatt á aðrar vörur. Einnig er hægt að nýta skattkerfið til að stuðla að samfélagsbreytingum, til að mynda með svokölluðum grænum sköttum sem styðja við umhverfisvænni atvinnu- og samgönguhætti. Síðast en ekki síst má segja að breyttir tímar kalli á nýtt hlutverk skattkerfisins að auka gegnsæi í ljósi þess að um heiminn eru skattstofnar ekki lengur staðbundnir og uppbygging fjármálakerfisins hefur skapað óteljandi möguleika á felustöðum fyrir fjármagn sem gerir það að verkum að hefðbundnir skattstofnar endurspegla aðeins hluta af því fé sem er í umferð.
Ég tel að breytt samfélagsgerð og fjármálakerfi kalli á nýja hugsun í skattamálum. Í fyrsta lagi í ljósi þess að hluti borgaranna fær sínar tekjur með hefðbundnum hætti í gegnum laun en hluti þeirra fær megnið af sínum tekjum af fjármagni. Þrátt fyrir það er skattlagningin ekki skipulögð með sama hætti. Eðlilegra væri að tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur fylgdu sömu lögmálum, með frítekjumarki og þrepaskiptu skattkerfi þannig að fólki sé ekki mismunað eftir því hvaðan það hefur tekjur sínar.
Tekjujöfnuður, sem meðal annars er mældur með Gini stuðlinum, segir hins vegar aðeins hálfa sögu. Miskipting auðs er ekki síður alvörumál. Á alþjóðavísu hefur misskipting auðæfa í heiminum aukist hratt undanfarið. Ríkasta prósentið á nú meira en hin 99 prósentin og auðæfi þeirra hafa aukist langt umfram hagvöxt í heiminum. Á Íslandi eiga ríkustu tíu prósentin næstum þrjá fjórðu allra auðæfa. Þetta kallar á umræðu um að taka upp auðlegðarskatt – vitaskuld þarf að ákvarða af kostgæfni við hvaða mörk hann ætti að vera – sem nauðsynlega jöfnunaraðgerð ef við teljum þessa misskiptingu óeðlilega en það tel ég að hún sé.
Það þarf að endurskoða fyrirkomulag tryggingagjaldsins sem á að standa undir mörgum mikilvægum verkefnum en um leið er uppi krafa um lækkun þess, ekki síst til að bæta starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þyrfti þá ef til vill að fara nýjar leiðir við fjármögnun mikilvægra verkefna á borð við fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingar?
Það verður æ nauðsynlegra að þjóðir heims eigi aukna samvinnu um skattamál því að þar hafa þær ekki enn náð að fylgja hnattvæðingunni sem einkennist af því að fjármagnið þekkir engin landamæri. Nú hafa tíu til fimmtán Evrópuríki sammælst um að taka upp skatt á fjármagnsflutninga. Þessi nýi skattur var meðal annars til umræðu á loftslagsráðstefnunni í París því að þó að hann sé ekki hár í prósentum talið getur hann skilað gríðarlegum tekjum – til dæmis í hinni alþjóðlegu baráttu gegn loftslagsbreytingum sem krefst alþjóðasamstarfs.
Skattar eru gjaldið sem við greiðum fyrir að búa í siðuðu samfélagi, sagði bandaríski hæstaréttardómarinn Oliver Wendell Holmes fyrir rúmri öld. Það er grundvallaratriði hvernig við útfærum þetta gjald.
Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs