Fyrir yfirráð netsins og netmiðla allan síðari hluta 20. aldar og framyfir aldamót voru nokkur stór dagblöð leiðandi í daglegri fréttamiðlun á Vesturlöndum. Þetta voru, og að hluta eru, dagblöð á borð við New York Times, Guardian, Times of London, Die Welt, Le Monde, Berlingske Tidende og Dagens Nyheter. Þessi blöð voru ekki einungis fréttablöð, ritstjórnir þeirra höfðu skoðanir og miðluðu þeim, en efnisval frétta mótaðist ekki nema að lágmarki af skoðunum ritstjóra. Einkunnarorð New York Times voru og eru: „All the News That´s Fit to Print“ (Allar fréttir sem sæmandi er að flytja). Morgunblaðið hafði á stundum metnað til þess að flokkast með þessum blöðum, þótt alltaf væri það gert af vanefnum eins og vænta mátti m.a. vegna gífurlegs munar í lesendafjölda og auglýsingatekjum.
Samskiptasaga mín við Morgunblaðið er orðin tæplega sjötíu ár, ég fór að lesa blaðið nánast um leið og ég varð læs, sennilega fimm ára haustið 1946. Áskrifandi að blaðinu hef ég verið í rúm þrjátíu ár, áður hafði ég aðgang að blaðinu á vinnustað og enn áður á heimili foreldra minna. Ég hef stöku sinnum skrifað í blaðið, smápistla í tengslum við störf mín svo og nokkrar minningagreinar. Þegar ég föstudaginn 3. júní 2016 sagði upp áskrift minni var það ekki sársaukalaus ákvörðun.
Á ævinni hef ég lesið Morgunblaðið í mörgum myndum, Kaldastríðs-moggann (sem ég var innilega sammála) fram um 1991, Morgunblaðið sem breyttist á ritstjóraárum Bjarna Benediktssonar eldri frá 1956 til 1959 og í beinu framhaldi af því ritstjórn Matthíasar Jóhannessen og Eyjólfs Konráðs Jónssonar og síðar Styrmis Gunnarssonar. Þá breyttist blaðið úr hörðu flokksblaði (í einkaeign) í fréttablað, sem valdi ekki fréttir eftir pólitík heldur fréttamati. (Áður voru fréttir allra blaða af þingfundum framhald af deilunum og algjörlega hlutdrægar, en MORGUNBLAÐIÐ hóf að segja um 1958 fréttir þar sem andstæðingar jafnt og samherjar Sjálfstæðisflokksins nutu sannmælis og hlutlægrar frásagnar.) Ritstjórn blaðsins hafði vissulega skoðanir, sem féllu í misjafnan jarðveg, fóru venjulega saman við skoðanir forystumanna Sjálfstæðisflokksins, en voru oft undanfari breytinga í afstöðu forystu flokksins. Á árunum eftir 1980 var blaðið oft svo langt á undan Sjálfstæðisflokknum að æði langt bil varð á milli, t.d. í afstöðu til fiskveiðistjórnar, náttúruverndar og heilbrigðiskerfisins. Á þessum tíma og fram um aldamót var Morgunblaðið vandað fréttablað með ritstjórnarstefnu sem var borgaraleg og frjálslynd.
Breytingar á fjölmiðlun, uppgangur sjónvarps, fríblöð, svo ekki sé minnzt á netið, virðast hafa leitt til fjárhagslegra erfiðleika Morgunblaðsins upp úr aldamótum, án þess að mér séu efnisatriði kunn. Jafnframt varð áberandi, að allt MORGUNBLAÐIÐ, þar með talin fréttadeildin, varð þátttakandi í deilum sinnar tíðar. Þeim sem fylgdust með deilunum um fjölmiðlamálið árið 2004 gat ekki dulizt að öllu MORGUNBLAÐINU var beitt. Í Baugsmálinu, en þar var ég þátttakandi í tiltölulega litlu hlutverki, duldist ekki heldur að öllu MORGUNBLAÐINU var líka beitt. Þetta gekk svo langt, að ritstjórn og fréttadeild stóðu fyrir hörðum árásum á dómskerfið, einkum Hæstarétt. Augljóst var, að þar gekk MORGUNBLAÐIÐ erinda öfgafyllstu forystu- og stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Þessi breyting á stefnu blaðsins varð ekki til þess að hagur þess vænkaðist, þvert á móti.
Í kjölfar Hrunsins fór blaðið í reynd á hausinn, en öflugustu útgerðarmenn landsins sameinuðust um að „endurreisa“ það og réðu fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra sem ritstjóra. Frá þeim tíma hefur Morgunblaðið einkum verið málsvari þess sem kalla má „útgerðarauðvaldið“, hóps fólks sem ræður yfir meginhluta fiskveiðikvótans og flestum helztu fiskvinnslufyrirtækjunum og útgerðunum.
Viku eftir að Davíð Oddsson varð ritstjóri Morgunblaðsins, áttaði ég mig á því að ég var hættur að trúa fréttum í blaðinu. Ekki í þeim skilningi, að blaðamenn hölluðu réttu máli í almennum fréttaskrifum, heldur efaðist ég mjög um að fréttavalið réðist af því sem raunverulega hafði gerzt eða var að gerast, heldur afstöðu um hvaða „fréttir“ kæmu eigendum blaðsins og auðfyrirtækjum þeirra vel. Við bættist svo, að skoðanir ritstjórnar og mínar fjarlægðust hratt. Samt hélt ég áskrift minni, en var í raun og veru hættur að lesa blaðið eins og ég áður hafði gert. Ég las í blaðinu það sem ég ekki gat fengið annarsstaðar: „Dödens avis“, það er að segja minningargreinar, einkum „svörtu kassana“, bridgeþáttinn og vísnaþátt Halldórs Blöndals svo og einstök efnisatriði í íþróttaumfjöllun. Efnismeðferð og afstaða ritstjórnar vanvirti mig á hverjum degi og lítillækkaði, en ég beygði mig undir svipuna.
Eftir að ritstjóri blaðsins tilkynnti framboð sitt til forseta Íslands tók steininn úr. Eigendum blaðsins er að sjálfsögðu fullkomlega heimilt að hafa skoðanir á forsetakosningunum og blaðinu að beita sér fyrir þeim, en það hefur blaðið yfirleitt ekki gert í undanförnum forsetakosningum, þótt stakar undantekningar séu á. Í þessari baráttu birtist þó nú tímaskekkja og veruleikafirring. Fyrir fjörutíu árum þegar Morgunblaðið barst á nánast hvert einasta heimili og til fjórfalt fleiri lesenda en það blað sem næst kom gat Morgunblaðið haldið fram hverju sem var og lesendur tóku það gott og gilt. Lengst af á þessum tíma fór Morgunblaðið með þetta vald sitt af ábyrgð og skynsemi. Áróðursmeistararnir sem nú ráða virðast ekki hafa áttað sig á að tímarnir hafa breytzt. Röflið, lygin og rangfærslurnar ganga ekki vegna þess að það er samstundis hrakið á samfélagsmiðlum. Skoðanakannanir enn sem komið er sýna, að lygar blaðsins og rangfærslur eru máttlausar. Söm er þeirra gerðin.
Hamsleysi og óheiðarleiki ritstjórnar Morgunblaðsins, sem ég kynntist með því að lesa endurprentanir úr blaðinu í öðrum miðlum, varð til þess að ég ákvað að nú væri nóg komið. Ég mun sakna minningargreinanna, bridgeþáttarins og vísnahornsins. Ég vildi ekki lengur erja garð útgerðarauðvaldsins fyrir að lítillækka mig á hverjum degi og sagði upp áskrift minni.