Loksins hefur nýr frjálslyndur Evrópusinnaður flokkur litið dagsins ljós. Sóknarhugurinn og gleðin var ósvikin á glæsilegum stofnfundi Viðreisnar í Hörpu þann 24. maí. Markið er sett á að koma góðu fólki á þing til þess að fylgja eftir stefnu og viðhorfum flokksins, helst með sæti í næstu ríkisstjórn.
Stofnun Viðreisnar á sér nokkurn aðdraganda og hefur því gefist tóm til þess að setja fram stefnu á mörgum sviðum, en enn er unnið að frekari útfærslu hennar fyrir fyrsta aðalfund flokksins í september á þessu ári. Stefnan er öllum aðgengileg á www.vidreisn.is.
Kveikjan að tilurð Viðreisnar er áhugi frjálslynds fólks á aðild Íslands að Evrópusambandinu og mikil vonbrigði með hvernig haldið hefur verið á þeim málum undanfarin misseri. Loforð hafa verið svikin, ítrekuð fjöldamótmæli og loks ákall 20% kosningabærra um þjóðaratkvæði hunsuð. Þessi framganga varð til þess að frjálslyndu fólki blöskraði og skapaði frjóan jarðveg fyrir Viðreisn. Þar er kominn vettvangur fyrir þá sem vilja taka höndum saman á grundvelli frjálslyndis og að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum þannig að almenningur og neytendur verði í forgrunni.
Stefna Viðreisnar í Evrópumálum er skýr. Hún er byggð á nokkrum grundvallaratriðum og leiðin er vel vörðuð.
Í fyrsta lagi að vestræn samvinna auki hagsæld þjóðarinnar og sé forsenda þess að halda samkeppnishæfni Íslands á öllum sviðum í fremstu röð.
Í öðru lagi að almannahagsmunir séu teknir fram yfir þrengri sérhagsmuni einstakra hópa eða atvinnugreina. Hagsmunir neytenda og almennings af aðild verði í forgrunni þó auðvitað þurfi alltaf að vega saman langtíma- og skammtímahagsmuni.
Í þriðja lagi að efnahagslegur stöðugleiki, samkeppnishæfni og lífskjör séu að minnsta kosti jafngóð og í helstu nágranna- og samkeppnislöndum Íslands.
Í fjórða lagi að hagsmunir Íslands séu samofnir hagsmunum Evrópuríkja á sviðum menningar, mannréttinda, efnahags- og viðskipta. Ísland deilir gildum með Evrópuríkjum og leggur áherslu á mannréttindi, athafnafrelsi, neytendavernd, réttlæti í samskiptum borgaranna við hið opinbera og óháð eftirlit með framkvæmd milliríkjasamninga. Styrkur Íslands í samskiptum við umheiminn er fólginn í skýrri samstöðu og samvinnu við þau ríki sem byggja á sömu gildum.
Í fimmta lagi að aðild að Evrópusambandinu fylgi margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna eigi svo fljótt sem verða má að bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Niðurstaða þeirra samningaviðræðna verði einnig borin undir þjóðina. Báðar atkvæðagreiðslur verði bindandi. Þannig er þess gætt að þjóðin ráði för í þessu mikilvæga máli og um leið verður samningsstaða Íslands styrkari.
Það þarf því enginn að velkjast í vafa um stefnu Viðreisnar í þessum efnum.