Ég ákvað að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands vegna þess að ég vil gera gagn og láta gott af mér leiða. Brýnasta verkefnið sem blasir við er uppbygging trausts í samfélaginu, því án trausts náum við hvorki að vinna saman né horfa til framtíðar. Sem forseti myndi ég vilja leiða samtal þjóðarinnar um stór mál sem varða framtíð okkar allra. Hvernig ætlum við að tryggja fjölbreytni í atvinnu og búsetu, hvernig ætlum við að gæta að því að tækifærin sem felast í aukinni ferðamennsku gangi ekki of nærri okkar samfélagi og náttúru, hvernig ætlum við að stuðla að því að börnin okkar velji að búa á Íslandi í framtíðinni.
Uppbygging samfélagssáttmálans
Á ferð minni um landið og í heimsóknum á vinnustaði hef ég orðið vör við að fólk er orðið langþreytt á neikvæðni og sundrung í samfélaginu. Þegar efnahagslífið hrundi töpuðust ekki einungis efnisleg verðmæti heldur einnig traust og sátt. Eftirmálar þess hafa ekki síst komið í ljós á síðustu vikum þegar leyndinni var svipt af aflandsreikningum. Að mörgu leyti hefur gengið ágætlega að koma efnahagslegum þáttum í samt lag, en vinnan við að græða samfélagssárið er bara rétt að hefjast.
Forsetaembættið getur gegnt mikilvægu hlutverki við að leiða samtal um framtíðarsýn Íslands, hvernig samfélagsgerð við viljum byggja upp og standa vörð um og hvaða gildi við ætlum að hafa að leiðarljósi. Við Íslendingar viljum búa í heiðarlegu og réttlátu jafnréttissamfélagi þar sem borin er virðing fyrir fólki og náttúru. Þetta kom skýrt fram á Þjóðfundi í Laugardalshöll árið 2009. Við þurfum að tala miklu meira um þessi gildi og við þurfum að sýna þau í verki í daglegum athöfnum. Þannig getum við byggt samfélagssáttmálan upp á nýtt, þannig getum við grætt sárin og byrjað að skapa aftur traust.
Vil opna Bessastaði
Ég sé hlutverk forseta fyrir mér sem þjónandi leiðtoga. Leiðtoga sem hvetur og virkjar samferðafólk sitt, hlustar og leiðir fólk saman, setur mál á dagskrá og hugar að hagsmunum þeirra sem minna mega sín.
Þjóðin öll á forsetaembættið í sameiningu og ég vil opna Bessastaði. Það er mikilvægt að allir landsmenn, og þá sérstaklega börnin okkar, fái tækifæri til að kynnast menningararfi okkar Íslendinga. Ég vil bjóða börnum í heimsókn til að skoða fornminjar sem finna má á Bessastöðum sem og ýmsa muni og minjar sem tengjast lýðveldissögu okkar. Ég vil halda menningaratburði í túninu, taka virkan þátt í íslensku samfélagi og styðja við þau fjölmörgu góðu verkefni sem fólk og félagasamtök leiða um allt land. Ég vil vera duglegur forseti sem í senn ræktar garðinn heima og virkjar sitt alþjóðlega tengslanet í þágu mennta, menningar og atvinnulífs.
Ég sé hlutverk forseta fyrir mér sem þjónandi leiðtoga. Leiðtoga sem hvetur og virkjar samferðafólk sitt, hlustar og leiðir fólk saman, setur mál á dagskrá og hugar að hagsmunum þeirra sem minna mega sín.
Fjölbreytt starfsreynsla gagnleg
Ég tel skipta máli að forseti búi yfir fjölbreyttri starfsreynslu, meðal starfa forseta er að leiða saman fólk, sætta og sameina. Ég kynntist ung grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, var í sveit og starfaði í fiski á unglingsárum. Störf mín á fullorðinsárum hafa að miklu leyti snúist um að koma breytingum til leiðar og að fá fólk til að vinna saman. Ég tók virkan þátt í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, þar sem ég var stjórnandi, ráðgjafi og kennari fyrir nemendur á öllum aldri. Þar leiddi ég einnig verkefnið Auði í krafti kvenna. Ég starfaði sem mannauðsstjóri hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum í Bandaríkjunum sem og hér heima. Ég tók við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs vorið 2006, en sagði upp starfi mínu ári síðar til að stofna Auði Capital vorið 2007. Við sem það gerðum vildum starfa á grunni góðra gilda og aukinnar samfélagslegrar ábyrgðar. Fyrirtækið fór skaðlaust í gegnum efnahagshrunið og olli engum tjóni. Ég tel að stjórnunarreynsla mín, kynni mín af grunnatvinnuvegum landsins og bakgrunnur sem stjórnandi, frumkvöðull og kennari komi að góðum notum í embætti forseta.
Jafnrétti fyrir alla
Ég hef mikið beitt mér fyrir jafnréttismálum og ég á mér þann draum að við Íslendingar verðum fyrst þjóða til að brúa kynjabilið. Við stöndum fremst meðal þjóða á helstu mælikvörðum sem horft er til varðandi kynjajafnrétti en við getum þó gert enn betur. Það er lykilatriði að mínu mati að konur og karlar sameinist um að brúa kynjabilið. Kynjajafnrétti er ekki eingöngu málefni kvenna, það skiptir vissulega máli að stúlkur og konur séu metnar að verðleikum og hafi tækifæri til að komast til áhrifa og valda til jafns við drengi og karla, en það skiptir ekki síður máli að styðja við drengina og tryggja að þeir sæki sér áfram menntun og hafi val um fjölbreyttar starfsgreinar. Jafnrétti nær þó yfir svo miklu meira en kynjajafnrétti. Ég vil að á Íslandi sé jafnrétti fyrir alla. Aldur, kyn, uppruni, búseta og fjárhagsleg staða mega ekki ráða för þegar kemur að tækifærum á Íslandi.
Aftur heim
Það samfélag sem ég ólst upp í einkenndist af dugnaði og náungakærleika. Mig langar til þess að við Íslendingar stöndum vörð um þessa samfélagsgerð. Ég hef verið svo lánsöm að hafa fengið tækifæri til að mennta mig og starfa erlendis, bjó um margra ára skeið í Bandaríkjunum og síðar í Bretlandi og á Norðurlöndunum, en ég kem alltaf aftur heim því samfélagið og náttúran eru mér dýrmæt. Af þeim löndum sem ég hef fengið að kynnast, tel ég Ísland vera það besta til þess að alast upp í og því eru börnin okkar sammála.
Ég á mér þann draum að íslensk börn og ungmenni fái tækifæri til að ferðast til annarra landa, læra tungumál og verða menningarlæs, en ég vil að þau langi til þess að koma aftur heim. Ég vil að þau sjái Ísland sem landið þar sem gott er að búa, eignast fjölskyldu, skapa verðmæti og láta til sín taka. Börn okkar og náttúran eru hinn raunverulegi auður þjóðarinnar, það er mikilvægt að hafa hugfast. Ég tel einnig mikilvægt að Ísland sé í fararbroddi þjóða hvað varðar að eldast við aðstæður sem við erum sátt við eftir langa starfsævi. Pabba var líka umhugað um það, en hann vann síðustu starfsárin sín sem húsvörður á heimili eldri borgara við Sunnuhlíð í Kópavogi. Því miður lést hann áður en hann gat notið þess að njóta elliáranna en skilaboð hans voru skýr: „við eigum að hlúa að þeim sem hafa lagt grunninn að uppbyggingu samfélagsins sem við búum í.“
Sameinumst um það sem skiptir máli
Mér finnst skipta málið að búa í manneskjulegu samfélagi. Samfélagi sem er gjöfult fyrir alla og grípur þá sem á hjálp þurfa að halda. Ég vil búa á Íslandi þar sem allir skipta máli. Ég veit að ég er ekki ein um það. Við stöndum á tímamótum og nú er rík þörf á að sameina og sætta. Ég tel að forsetaembættið geti leitt samtal um uppbyggingu trausts. Það er nefnilega þannig að þegar við tölum saman sem manneskjur þá erum við miklu oftar sammála en ósammála. Allavega um þá hluti sem virkilega skipta máli. Við erum öll í sama liðinu, Íslandi.
Börn okkar og náttúran eru hinn raunverulegi auður þjóðarinnar, það er mikilvægt að hafa hugfast.