Það er alltaf ánægjulegt þegar umræðan um flugvöllinn í Vatnsmýri kemst í hámæli líkt og þessa dagana. Fá mál skipta þjóðina meira máli en þetta tiltekna landssvæði í hjarta Reykjavíkur og óskandi væri að dómur hæstaréttar um lokun flugbrautarinnar sem staðið hefur til að loka áratugum saman yrði til þess að skipulagsmál í Reykjavík verði að kosningamáli í komandi kosningum. Það er nefnilega hárrétt hjá sérhagsmunaaðilum í flug- og ferðaþjónustu að það slær hjarta í Vatnsmýri og þar er flugvöllurinn sannkallað kransæðakítti.
Ein besta grein sem birtist á öldum ljósvakans á síðasta ári ber heitið Reykjavík er framtíð Íslands en þar skýrir Gunnar Smári Egilsson á hnitmiðaðan og vel rökstuddan hátt mikilvægi borgarsamfélaga á 21. öldinni með tilliti til efnahagsmála. Staðreyndin er sú að borgir knýja áfram hagkerfi heimsins og þar er Ísland engin undantekning. Þegar kemur að auknum lífsgæðum, félagslegu réttlæti, aðgangi að heilbrigðisþjónustu og menntun stenst engin tegund samfélaga borgum snúning enda hefur vöxtur borga aldrei verið hraðari í mannkynssögunni. Meirihluti mannkyns vill búa í borgum og samkeppnishæfni þjóða stendur og fellur með styrk borgarsamfélaga.
Á Íslandi er aðeins einn vísir að öflugri borg og þar af leiðandi er það eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar að styrkja höfuðborgarsvæðið eins hratt og vel og kostur er. Forgangsröðun skiptir öllu máli í því samhengi og þeim mun fyrr sem við áttum okkur á því að enn er möguleiki miðsvæðis á meðan dreifð úthverfi eru dauðadæmd hvað hagkvæmni og umhverfissjónarmið varðar, því betra. Miðlæg landssvæði í borgarumhverfinu eru jafn verðmætar auðlindir fyrir íslenska þjóð og fiskurinn í sjónum og óspillt náttúra og við sem samfélag getum ekki með nokkru móti leyft okkur að nýta eina af bestu auðlindum þjóðarinnar undir flugvöll.
Þetta kann allt saman að hljóma harkalegt og hrokafullt en staðreyndin er sú að Ísland er borgríki öðru fremur þrátt fyrir að sjálfsmynd þjóðarinnar gefi annað til kynna. Ekkert mun styrkja aðrar byggðir landsins betur en sterk höfuðborg sem stenst samanburð við aðrar borgir í heiminum og ekkert okkar mun elska Ísafjörð minna þó svo að okkur takist að laða eins og eitt til tvö alþjóðleg og spennandi fyrirtæki til Reykjavíkur með tilheyrandi innspýtingu og lærdómsgildi fyrir íslenskt samfélag. Það felst engin stríðsyfirlýsing eða aðskilnaðarstefna í því að aðhyllast heilbrigða skynsemi og fylgja takti samtímans.
Þeir stjórnmálamenn sem nú stefna að því láta komandi alþingiskosningar snúast um hvort flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýri eða ekki eru ekki bara hugsjónalausir heldur beinlínis hættulegir íslensku samfélagi. Ákvörðunin sem við stöndum frammi fyrir er hvort finna eigi flugvellinum nýjan stað eða flytja hann til Keflavíkur. Flóknara er málið ekki og öll rök um neyðarflug og aðgang að heilbrigðisþjónustu eru eingöngu tæknileg og pólitísk úrlausnarefni sem einfalt er að leysa á þeim tímum sem almenningur getur bókað ferðir út í geim á þráðlausu neti í 35 þúsund feta hæð.