Stóratunga er landssvæði á NA hluta Íslands. Í norðri markast Tungan af ármótum Svartár og Skjálfandafljóts í um 70 km fjarlægð frá Skjálfandaflóa. Stóratunga teygir sig milli Skjálfandafljóts að vestan og Svartár og Suðurár að austan, 25km til suðurs að þjóðlendumörkum við Suðurárbotna í u.þ.b. 460 m hæð yfir sjávarmáli. Í Suðurárbotnum spretta fram undan Ódáðahrauni ógrynni af lindarvatni sem mynda Suðurá sem er ein af vatnsmestu lindarám landsins. Svartá á upptök sín í Svartárvatni norðan Suðurárbotna, sem rennur í Suðurá og sameinaðar bera þær nafn Svartár til ósa í Skjálfandafljóti. Innar á hálendinu, nokkru austan Suðurárbotna, liggja Herðubreiðarlindir.
Stórutungusvæðið í heild sinni er einstakt á landsvísu fyrir margra hluta sakir. Ekki einungis lega svæðisins, þ.e. hálendið og jaðar þess, heldur er hið sérstaka samspil lindarvatns, jarðmyndana, gróðurs og dýralífs sem gerir svæðið einstakt. Suðurá og Svartá eru lífæðar þessa svæðis, þær vökva og næra allt það fjölskrúðuga líf sem þar nær að dafna. Hér fer saman í hrjóstugu umhverfi Ódáðahrauns, gróskumikill hálendisgróður, mikið skordýralíf og fjölskrúðugt fuglalíf, sumar á válista t.d. straumönd og húsönd ásamt fálka, en hér er eitt mikilvægasta óðal hans á Norðurlandi. Endrum og eins sést til Snæuglu en fyrir kemur að hún verpi í Ódáðhrauni.
Umhverfi Svartár og Suðurár er einstök gróðurvin, með mosabreiðum, fjalldrapa og víði, lynggróðri og blómjurtum ýmiskonar, mýrar- og mógróðri. Í Suðurá lifir bleikja og urriði en í Svartá er einn glæsilegasti urriðastofn landsins.
Allt er svæðið síðan rammað inn í glæstann fjallahring. Í suðvestri blasa við Bárðarbunga og Trölladyngja, Dyngjufjöll og Askja í suðri, Herðubreið og Kollóttadyngja í suðaustri og Mývatnsfjöllin í norðri ásamt útsýni út Bárðardal í átt til hafs. Og í háfjallakyrrðinni sem þar ríkir þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að heyra „útilegumenn í Ódáðahraun smala fé á laun“ eða skessurnar kallast á í Trölladyngju.
En nú eru uppi áætlanir um að virkja Svartá. Um er að ræða 9,8 MW virkjun sem SSB orka ehf. hyggst reisa. Unnið er að undirbúningi virkjunarinnar ásamt 47 km löngum jarðstreng yfir Mývatns- og Laxárdalsheiði sem kemur niður í Laxárdal og tengist virki Laxárvirkjunar. Framkvæmdirnar eru nú í lögformlegu umhverfismati en reiknað er með þær hefjist árið 2017.
Stífla á Svartá ofan ármóta Grjótár. 20m3 af 23m3/s vatnsmagni Svartár verður leitt í 3,1 km langri aðrennsispípu í stöðvarhús. Þessum áætlunum fylgja línulagnir, námugröftur, vegaframkvæmdir ásamt verulegu raski samfara lagningu jarðstrengs yfir Mývatns-og Laxárdalsheiði og í friðlýstum Laxárdal.
Þessi hálendisvin mun bera óafturkræft tjón af fyrirhuguðum framkvæmdum. Búsvæði skordýra, fiska og fugla munu skerðast, sem hefur varanlega neikvæð áhrif á lífsafkomu þeirra enda allt dýralíf á þessum slóðum viðkvæmt. Votlendi á virkjunarsvæðinu ásamt grónum eyjum og hólmum mun hverfa. Svartá með strengjum og flúðum verður ekki svipur hjá sjón. Helgunarsvæði Svartárvirkjunar verður flokkað sem iðnaðarsvæði sem skerðir gildi þess verulega til útivistar. Veiði leggst af á áhrifasvæði virkjunarinnar en sjálfbærar fluguveiðar á urriða og bleikju hafa verið stundaðar í Svartá í áratugi. Og síðast en ekki síst mun heildarásýnd Stórutungusvæðisins bíða óbætanlegt tjón af til allrar framtíðar.
Íslensk náttúra í fjölbreytileika sínum og fegurð landsins er okkar dýrmætasta auðlind. Hún gefur okkur ekki einungis aukna hagsæld heldur veitir okkur velsæld, lífsgleði og heilbrigði til líkama og sálar. En í raun og veru eigum við ekki þessa auðlind. Við höfum hana að láni og því ber okkur siðferðileg skylda til skila henni óskaddaðri til komandi kynslóða. Við verðum að umgangast þessa auðlind með sjálfbærni í huga og hafa það að leiðarljósi að náttúran njóti vafans í gjörðum okkar gagnvart henni.
Með virkjun Svartár er verið að fórna ómetanlegri náttúruperlu fyrir vísan gróða fárra einstaklinga af raforkusölu á kostnað okkar almennings í landinu. Stórutungusvæðið er listaverk náttúrunnar og gersemi sem við eigum að umgangast eins og aðrar þjóðargersemar, hlúa að þeim og varðveita. Við rífum ekki kafla úr Flateyjarbók eða klippum gjána úr Fjallamjólk Kjarvals þó svo að einhverjir einstaklingar sjái sér hag í þeim gjörningi. Stórutungusvæðið verður að vernda í heild sinni og í því skyni hefur nú verið stofnað félag, Verndarfélag Svartár og Suðurár. Markmið félagsins eru:
1. Að beita sér fyrir verndun og friðlýsingu Svartár og Suðurár.
2. Að gæta lífríkis svæðisins þar með talið fiska, fugla, skordýra og annara lífvera svo og gróðurfars, og beita sér gegn öllum framkvæmdum er skaðað gætu lífríkið.
3. Gæta þess að hvorki vatnsrennsli né farvegi Svartár eða Suðurár verði breytt.
4. Að fram fari ítarlegar rannsóknir á náttúrufari svæðisins.
Félagið er opið öllum þeim sem starfa vilja að markmiðum þess.
Fyrir hönd stjórnar.
Jón Aðalsteinn Þorgeirsson
formaður Verndarfélags Svartár og Suðurár