Sú gríðarlega hraða aukning sem verið hefur í ferðaþjónustu, og ýmsum rekstri sem byggir á henni, vekur upp margar spurningar um hvernig best sé að haga uppbyggingu í nánustu framtíð. Árið 2010 komu 459 þúsund erlendir ferðamenn til landsins, en í fyrra voru þeir tæplega 1,3 milljónir. Spár gera ráð fyrir 1,6 milljónum á þessu ári, og 2,2 milljónum árið 2018.
Samhliða hefur gistiþjónusta stóreflst, eins og gefur að skilja, og hefur það haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn, ekki síst í miðbæ Reykjavíkur og nágrenni. Þar hafa yfir tvö þúsund íbúðir verið auglýstar til leigu fyrir ferðamenn, í gegnum hinar ýmsu vefsíður.
Þá hafa hótel einnig verið byggð, og þau sem fyrir voru stækkuð töluvert, í mörgum tilvikum. Í fróðlegri umfjöllun í Fréttatímnum í síðustu viku var á það bent, að mikil þörf væri fyrir mun fleiri gistirými á næstu árum, eða sem nemur um þrjátíu hótelum - ef miðað er við Fosshótel við Þórunnartún - fram til 2022, í Reykjavík einni.
Það er óþarfi að vera með svartsýni, en það virðist vera aðkallandi þörf á því að byggja mikið upp innviði í ferðaþjónustunni, hvort sem litið er til gistirýmis, eða aðstöðu almennt, ekki síst í þjóðgörðum sem taka sífellt við fleiri gestum.
Vonandi eru stjórnvöld, sveitarfélög og fyrirtæki að greina áhrifin af þeim vexti sem spáð er í komum ferðamanna til landsins, og búa til plön í samræmi við þau.