Við finnum það svo sterkt þessa dagana hversu mikill kraftur og von fylgir samkennd meðal þjóðarinnar þegar hún sameinast um að styðja landslið karla í fótbolta. Sameiginlegur draumur um velgengni liðsins þéttir raðirnar og trúin á árangur skapar gleði og von. Á bak við árangur landsliðsins er einstök færni og samstaða liðsins en ekki síst framlag farsælla þjálfara og leiðtoga liðsins.
Guðni Th. Jóhannesson hefur þekkingu og færni sem forseti þarf til að skapa slíka samstöðu og samkennd meðal þjóðarinnar. Sannur áhugi Guðna og staðföst trú hans á mikivægi hvers einstaklings gerir honum kleift að vera fulltrúi allra landsmanna. Hann hefur hæfileika til að hlusta á rödd þjóðarinnar og skapa með henni sameiginlegan draum og framtíðarsýn um hamingjuríka og farsæla daga fyrir landið okkar og fólkið sem hér býr.
Hógvær forseti sem er góður hlustandi er fær um skapa samstöðu og að miðla málum þegar nauðsyn krefur. Um leið og Guðni hefur tamið sér hófstillta framgöngu býr hann yfir stefnufestu, hugrekki og einurð til þess að taka af skarið, stíga fram og vera fremstur meðal jafningja þegar á þarf að halda.
Í landi þar sem kallað er eftir samstöðu og trausti er óendanlega dýrmætt að eiga forseta sem er þekktur fyrir að vera heilsteyptur og trúverðugur. Forseti sem er skarpgreindur og vel að sér í sögu lands og þjóðar hefur einstakt tækifæri til að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við og til að efla traust og samkennd meðal þjóðarinnar inn á við.
Forseti sem hefur hæfileika til að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega en tekur ábyrgðina sem fylgir embættinu hátíðlega verður góður forseti og góður leiðtogi þjóðarinnar. Guðni Th. býr yfir þessum kostum og þess vegna styð ég hann til embættist forseta Íslands í kosningunum 25. júní næstkomandi.
Höfundur er dósent við Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands og Þekkingarsetur um þjónandi forystu.