Það eru um 30 ár síðan ég hitti Guðna Th. Jóhannesson fyrst. Við vorum saman í bekk tvö síðustu árin í menntó. Hann var ögn hlédrægur með krullað hár sem þyrlaðist um höfuðið á honum. Við bekkjarsystkinin urðum samheldin og fljólega kom í ljós að Guðni var einstaklega vel gerður, skemmtilegur, hjálplegur og gáfaður.
Við vorum svo heppin að vera í bekk með yndislegu fólki sem hefur haldið hópinn. Við hittumst reglulega í hádeginu, alltaf á sama stað, með útsýni yfir gamla skólann. Með hverju árinu sem líður verða þessar stundir dýrmætari og gleðin yfir því að fá að hitta gömlu vinina hjartanlegri. Við verðum aftur sömu krakkarnir og við vorum í menntó en deilum um leið gleði og sorgum sem fylgja fullorðinsárunum.
Guðni hefur haldið hópnum saman. Boðað okkur til hádegisfunda, passað upp á stórafmæli og haldið okkur upplýstum ef eitthvað bjátar á hjá einhverju okkar. Þegar hann ákvað að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands fannst okkur gömlu bekkjarsystkinunum þetta sjálfsögð ákvörðun. Guðni, sem hefur verið sameiningartákn okkar síðustu áratugina, er auðvitað rétti maðurinn í forsetaembættið. Hann er mjög vinnusamur, vel að sér um sögu og stjórnmál, glaðlyndur, heiðarlegur og vinsæll fræðimaður og fundastjóri.
Við Guðni skeggræðum oft um málefni líðandi stundar. Við erum oft sammála en alls ekki alltaf. En hann er málefnalegur og við virðum skoðanir hvors annars. Ég vil að forseti Íslands sé fulltrúi þjóðarinnar allrar en ekki afmarkaðra hópa. Ég veit að Guðni hefur til að bera þá reynslu, þekkingu og ábyrðgartilfinningu sem góður forseti þarf að búa yfir. En þegar öllu er á botninn hvolft þá kýs ég hann því mér þykir vænt um hann og ég sé hann fyrir mér brosandi á hjólinu með allan barnaskarann á leiðinni í búðina, sund eða skólann. Ég veit að Guðni yrði góður forseti.