Þó fótboltinn eigi hug landsmanna, þessa dagana, þá er öllum hollt að hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda. Skelfilegir atburðir í Tyrklandi, þar sem þrjár sjálfsmorðsárásir á Ataturk flugvellinum í Istanbúl bönuðu 42 og særðu á þriðja hundrað, eru til marks um eldfimt ástand í landinu.
Síendurtekin hryðjuverk, á tiltölulega skömmum tíma, hafa skapað ótta í þessu fallega landi. En mikil pólitísk ólga er ekki til að bæta erfitt ástand.
Því miður eru margir sem tengja hryðjuverkin við þá staðreynd, að í Tyrklandi eru 2,5 milljónir flóttamanna, sem hafa einkum komið frá Sýrlandi vegna borgarastyrjaldarinnar þar í landi. Yfir 11 milljónir manna, af 22 milljóna heildaríbúafjölda Sýrlands, hafa flúið heimili sín.
Alþjóðasamfélagið, bæði Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar, hafa ekki náð utan um vandann, enda margslungið og flókið verkefni, sem ekki verður rakið í löngu máli á þessum vettvangi.
En það er ekki svo flókið að haga málflutningi með þeim hætti, að flóttamenn séu ekki tengdir við hryðjuverkaárásir, enda fullkomlega ástæðulaust og í reynd ömurlegt. Neyð fólksins er næg fyrir.