Óhætt er að segja að mikil ringulreið sé nú í breskum stjórnmálum, eftir Brexit-atkvæðagreiðsluna þar sem meirihluti Bretla kaus með því að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið. Ekki liggur fyrir enn hvernig verður að því staðið, og deildar meiningar eru um hver næstu skref eiga að vera.
Frá forystufólki stærstu Evrópusambandsríkjanna, þar á meðal Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hafa komið skýr skilaboð um að Bretar eyði sem fyrst allri óvissu, og yfirgefi sambandið hratt fremur en hægt, fyrst kosningarnar fóru eins og þær fóru.
Það verður spennandi að sjá hvernig spilað verður úr þessari stöðu.
Ísland hefur mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að viðskiptum við Bretlandsmarkað. Í fyrra voru vörur seldar til Bretlands fyrir 120 milljarða, og eru sjávarafurðir þar stór hluti. Þá komu 19 prósent af öllum ferðamönnum sem hingað koma, frá Bretlandi.
Það eina sem liggur fyrir núna, á þessum tímapunkti, er að Brexit hefur haft slæm áhrif á viðskiptasamband Íslands og Bretlands, vegna mikillar veikingar pundsins gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum. Pundið kostar nú 159 krónur en daginn fyrir Brexit var það á 180 krónur. Kaupmáttur Breta gagnvart Íslandi hefur því versnað töluvert á skömmum tíma.
Vonandi munu íslensk stjórnvöld fylgjast vel með þróun mála, þó Bresk stjórnvöld hafi örlögin í höndum sér.