Ný loftslagsstefna Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar. Stefnt er að því að borgin verði kolefnahlutlaus fyrir árið 2040 og að grænar áherslur ráði för í allri ákvörðunartöku borgarinnar. Loftlagsáætlunin verður svo endurskoðuð á fimm ára fresti í takti við Parísarsáttmálann sem Ísland hefur undirritað.
Þetta er gleðiefni, en Reykjavíkurborg getur samt gengið enn lengra þegar kemur að sértækum aðgerðum til þess að verða umhverfisvænni. Rafbílavæðing er þar augljóst atriði, eins og bent hefur verið á á þessum vettvangi áður. Fá borgarsvæði í heiminum, ef þá einhver, eru með betri innviði fyrir rafbílavæðingu bílaflotans. Vistvæn orka og traustir innviðir raforkukerfisins bjóða upp á metnaðarfull markmið.
Vonandi verða borgaryfirvöld tilbúin að framkvæma og grípa til aðgerða fljótt. Eins og Halldór Þorgeirsson, einn af yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að stefnumörkum í loftslagsmálum, sagði á ráðstefnu Landsvirkjunar um þessi mál, þá er ekkert annað að gera en að hrinda þessu í framkvæmd. Hratt.