Mikil vinna hefur nú farið fram á vegum stjórnvalda, þar sem lagning sæstrengs milli Íslands og Bretlands er skoðuð, og voru gögn um málið kynnt ítarlega í gær. Við fyrstu sýn virðast gögnin sem tekin hafa verið saman, og greind, vera mikilvægt innlegg í þá vinnu sem verið hefur í gangi undanfarin misseri. Skýrslurnar eru ítarlegar og hefur greinilega verið vandað til verka.
Ljóst er að verkefnið er risavaxið, og það langsamlega stærsta sem íslensk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir, þegar einstaka framkvæmdir eru annars vegar.
Það sést glögglega á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um sæstrenginn núna, að vinna við rammaáætlunina er algjört lykilatriði til lengdar litið, þegar kemur að orkugeiranum og þrún hans hér á landi. Með henni sést nákvæmlega, hvar verður hægt að virkja, og hvar ekki. Það er ekki aðeins mikilvægt að skoða þetta út frá sæstrengnum, heldur líka á umhverfissjónarmiðum og hvers virði þau eru, t.d. fyrir ímynd landsins og ferðaþjónustuna. Þetta er erfitt verkefni og margslungið, en vonandi ná stjórnmálamenn að leiða það til lykta, þannig að sem mest sátt ríki um niðurstöðuna.