„Það er ekki þörf á tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Og það hefur hvergi komið fram að mér vitandi, og svo sannarlega ekki í þessari skýrslu og ekki í neinu sem við höfum lagt til. Skýrslan gerir eingöngu ráð fyrir að það séu um 250 megavött úr hefðbundnum virkjunum eins og við þekkjum þær, sem er ígildi einnar Hrauneyjarfossvirkjunnar eða innan við helming af einni Kárahnjúkavirkjun.“
Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í viðtali við RÚV þegar hann var spurður að því, hversu mikið Landsvirkjun þyrfti að virkja til að uppfylla þarfir fyrir forsendur lagningar sæstrengs milli Íslands og Bretlands.
Óhætt er að segja að þetta sé annað en kom fram á fundi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, stóð fyrir. Á þeim annars ágæta fundi, þar sem ítarlegar skýrslur um sæstrenginn voru kynntar, sagði hún að málið væri stórt og viðkvæmt, og nefndi sérstaklega sjálf, að virkja þyrfti til viðbótar sem næmi um tveimur Kárahnjúkavirkjunum.
Ekki er annað að sjá, þegar skýrslurnar sem kynntar voru á fyrrnefndum fundi eru skoðaðar, en að þetta sé rétt sem Hörður nefnir. Hvergi hefur verið á það minnst, að virkja þurfi til viðbótar sem nemur um tveimur Kárahnjúkavirkjunum.
Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld haldi sig við málefnalega umræðu um þessi mál, sérstaklega þegar fyrir liggur að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka neina afstöðu til verkefnisins, heldur að láta næstu ríkisstjórn um það.