Enski boltinn er á meðal vinsælustu dægrastyttingum Íslendinga. Undanfarin ár hafa íþróttastöðvar Stöðvar 2 getað sýnt frá 380 leikjum á ári og viðskiptavinir getað valið leiki síns liðs síðdegis á laugardögum, þegar flestir leikir fara fram. Í nýjum samningi 365, sem á Stöð 2, um að sýna frá enska boltanum á rásum sínum kemur fram hins vegar fram að þeim leikjum sem 365 fái að sýna frá beint fækki í 200, eða um tæpan helming. Þetta þýðir meðal annars að einungis einn leikur, valinn af starfsmönnum 365, verður sýndur beint síðdegis á laugardögum.
Ekki er að sjá að þessi skerta þjónusta endurspeglist í því verði sem viðskiptavinir 365 þurfa að greiða fyrir aðgengi að enska boltanum. Skömmu eftir að samningurinn um réttinn til að sýna frá enska boltanum var undirritaður, og þegar fyrir lá að þeim leikjum sem sýndir yrðu myndi fækka umtalsvert, réðst 365 í breytingar á áskriftarleiðum. Áður gátu viðskiptavinir valið um að kaupa áskrift að Stöð 2 Sport, sem sýndi frá ýmis konar íþróttum, og Stöð 2 Sport2, sem sýndi frá enska boltanum. Áskrift af þeirri fyrrnefndu kostaði fyrir ári síðan 9.490 krónur og aðgangur að enska boltanum kostaði 9.990 krónur. Hægt var að kaupa þær saman í Sportpakka á 13.990. Þessir pakkar hækkuðu síðan um 500-1000 krónur haustið 2015.
Þann 1. febrúar 2016, þremur mánuðum eftir að skrifað var undir nýjan samning um sýningar á enska boltanum, var enn tilkynnt um breytingu á áskriftarleiðum. Þá voru allir sem greiddu af annarri hvorri stöðinni settir í einn nýjan Sportpakka sem kostaði 14.990 krónur á mánuði. Með þeirri aðgerð hækkaði 365 áskriftarverð þeirra sem greiddu áður einvörðungu fyrir Stöð 2 Sport, eða einvörðungu fyrir Stöð 2 Sport2, um 43 prósent. Ef miðað er við verðið sem þurfti að greiða fyrir enska boltann einan og sér sumarið 2015 þá hefur það hækkað um 50 prósent, þrátt fyrir verulega skerta þjónustu.