Átök milli ríkisstjórnarflokkanna hafa skotið laumulega upp kollinum annað veifið í gegn um kjörtímabilið; sala Landsbankans, Leiðréttingin, náttúrupassinn og kvótafrumvarpið voru öll mál sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur áttu erfitt með að koma sér saman um. En flokkarnir reyndu samt sem áður að halda átökunum á bak við tjöldin og náðu, á nokkuð aðdáunarverðan hátt, að bera þau ekki á torg. Eðlilega eru ólík sjónarmið á milli ólíkra flokka, þó að þeir vinni saman í ríkisstjórn. Ekki þarf að líta lengra aftur en til síðustu ríkisstjórnar, þar sem grundvallaratriði eins og innganga í Evrópusambandið, varð ítrekað tilefni opinberra átaka.
Í vikunni byrsti Eygló Harðardóttir, ritari Framsóknarflokksins og ráðherra félags- og húsnæðismála, sig harðlega við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Hún líkti samskiptum þeirra við slagsmál um fjárframlög til velferðarmála, en húsnæðisfrumvörp Eyglóar hafa einmitt verið eitt af stærstu ágreiningsmálum flokkanna tveggja. Hún sakaði Bjarna um að vilja bara lækka skatta á þá efnamestu, í stað þess að veita fé inn í velferðarkerfið. Bjarni sagðist á móti ekki kannast við neitt slíkt og undirstrikaði að ríkið hafi aldrei varið meira fé til almannatrygginga.
Eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fráfarandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kjölfar ummæla Eyglóar, virðist vera að „kosningaskjálfti“ sé kominn í suma. Það eru að koma kosningar. Framsóknarflokkurinn mælist með í kring um tíu prósenta fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum 25 til 30 prósentum. Það áhugaverða er að Eygló beið ekki með að sprengja ríkisstjórnina andlega þar til eftir sumarfrí. Hún hefur vissulega sett tóninn fyrir það sem koma skal: Afnám verðtryggingar, búvörusamninga, LÍN og fleiri smámál sem ríkisstjórnin segist ætla að ljúka áður en boðað verður til kosninga, í haust. En árstíðir á Íslandi eru svo sem teygjanlegt hugtak.