Skýrsla Orkustofnunar um gagnrýni á vinnu verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar er um margt athyglisverð. Orkustofnun segir aðferðir verkefnisstjórnarinnar óvandaðar og á köflum séu þær ekki í samræmi við lög. Greiningarvinna sé ófullnægjandi og utan skynsemismarka, mat sé byggt á of þröngu sjónarhorni, skortur sé á samræmi í einkunnagjöf og flokkun handahófskennd og órökstudd. Um er að ræða umsögn Orkustofnunar vegna skýrsludraga verkefnisstjórnar um þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda.
Orkustofnun vill fá fleiri virkjanakosti í nýtingarflokk. Í skýrslunni eru nokkrir kostir sérstaklega tilteknir, sem verkefnisstjórnin hefur viljað hafa í biðflokki, og rök færð fyrir því hversu vitlaust það er. Þessir kostir eigi að vera settir í nýtingu. Verkefnisstjórninni er meira að segja sérstaklega hrósað vegna eins kosts sem hún lagði til að yrði settur í nýtingarflokk.
Það er merkilegt að sjá með hvaða hætti jafn mikilvægt batterí og Orkustofnun ákveður að setja fram svo harða og grímulausa gagnrýni á vinnu verkefnisstjórnarinnar. Augljóst er að misjöfn sjónarmið ráða þarna för og það verður forvitnilegt að sjá umsögn Landsvirkjunar við drögunum. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar eiga væntanlega eftir að halda áfram að bítast um hina margumræddu rammaáætlun þar til allir landsmenn átta sig almennilega á því hvað það orð þýðir. Það getur tekið tíma sinn.